Rósmarín ostabollur

Nú þegar bolludagsæðið er að renna sitt skeið þá fannst mér tilvalið að enda það með bollum sem pössuðu með sprengidagssúpunni sem ég gerði úr blómkáli og að þessu sinni er ég undir áhrifum frá henni Kristínu Vald sem er dásamlega fær ljósmyndari og listakokkur í ofanálag. Hún er einstaklega smart kona og myndirnar hennar bara rugl fallegar. Maturinn og allt sem hún gerir svo í ofanálag er svo einstaklega girnilegur svo ég ákvað að herma eftir einni uppskrift sem hún gerir víst alltaf á bolludaginn og kallast basilbollur. Þetta er ekki ósvipað vatnsdeigsbollum og úr því ég var í æfingu þá prófaði ég að flippa þessum hefðbundnu yfir í lágkolvetna og notaði rósmarín, ég átti ekki basiliku haha. Þetta kom rosalega vel út og bragðaðist vel með súpunni góðu. Þær má líka gera einar og sér enda mjög bragðgóðar.

innihald:

 • 125 ml rjómi
 • 125 ml vatn
 • 100 g smjör
 • 1 tsk salt
 • 100 g fituskert möndlumjöl FUNKSJONELL
 • 1 kúfuð tsk Xanthan gum
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 3 egg
 • 100 g rifinn ostur
 • 1 msk rósmarín má líka nota ferska basiliku

aðferð:

 • Hitið ofn í 190 °C með blæstri
 • Hitið vatn, rjóma og smjör ásamt salti þar til fer að sjóða.
 • Hellið þá þurrefnum saman við og hrærið kröftuglega með sleif þar til deigið þykknar og verður samfellt.
 • Færið deigið þá yfir í hrærivél eða notið pottinn áfram það breytir ekki öllu, en ef þið hrærið í potti þá þarf að vera soldið kröftugur.
 • Þegar deigið hefur kólnað í 5 mín ca, þá er einu og einu eggi hrært saman við í einu og hrært kröftuglega á milli, líka hægt að nota K spaðann í hrærivél.
 • Þegar eggin 3 eru komin saman við þá setjið þið rifinn ost og kryddið saman við og hrærið áfram.
 • Dreifið næst bollum á plötu, gott að nota 2 matskeiðar og bakið í 20 mín. Ekki opna ofninn á meðan bollurnar bakast.
 • Þegar baksturstími er liðinn slökkvið á ofni og látið bollur kólna þar inni.
 • Berið fram með smjöri og súpu, dásamlegt.