Rúlluterta með jarðaberjarjóma

Rúlluterta með sultu er nú svolítið jóló en þó ekkert endilega. Þetta er bara dásamlega fersk og góð kaka sem passar við hvað sem er. Það má líka skera hana í parta og stafla upp með sultu eingöngu og þá er komin hin fínasta lagterta, svona ekta jóla. Þetta er fljótleg og einföld uppskrift og ég mæli með að þið prófið. Passið bara að rúlla henni fljótt upp og láta hana kólna upprúllaðari með röku stykki til að kakan molni ekki.

innihald:

 • 150 g Sukrin sæta
 • 6 egg aðskilin
 • 60 kókoshveiti Funksjonell
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið ofninn í 180° hita með blæstri
 • Þeytið eggjahvíturnar sér þar til þær eru stífar og á meðan þeytið þið eggjarauður og sætu saman í annarri skál ásamt vanillu þar til léttar og ljósar.
 • Blandið kókoshveitinu og lyftidufti saman og hellið því varlega saman við þeyttar rauðurnar. Blandið öllu vel saman og að lokum fara þeyttar hvíturnar varlega út í deigið. Veltið þessu saman svo loftið fari ekki úr og dreifið deiginu á smjörpappír eða silikonmottu, ég nota mottu frá Tupperware. Þetta verður einn ferkantaður botn.
 • Bakið í um það bil 15 mín í miðjum ofni en passið að láta ekki brenna.
 • Takið kökuna úr úr ofninum, leggið annan pappír yfir, snúið kökunni á hvolf og rúllið kökunni upp í rúllu og geymið á borði. Gott er að setja rakt viskastykki utan um rúlluna( meðan hún er í pappírnum) á meðan hún kólnar.

fylling:

 • 200 ml rjómi
 • 2 msk Sukrin Melis
 • 1/2 krukka af Funksjonell sultu, jarðaberja eða blandaðri skógarberjasultu
 • 8-10 fersk jarðaber

aðferð:

 • Þeytið rjómann með sætunni og skerið niður jarðaberin.
 • Smyrjið sultu á útrúllaða kökuna og síðan rjóma, dreifið næst niðurskornum jarðaberjum yfir og rúllið varlega upp kökunni.
 • Það er gott að nota pappírinn sem er undir og rúlla með honum nokkuð þétt.
 • Mér finnst gott að kæla eða frysta kökuna áður en hún er borin fram, því þá er auðveldara að skera í þunnar sneiðar.