Satay kjúklingur og kryddgrjón

Ég ákvað að prófa snilldarvöru úr Nettó um daginn sem er frá änglamark og er s.s. frosin blómkálsgrjón. Það fást líka frosin brokkolígrjón og ég á eftir að gera eitthvað geggjað úr þeim, t.d. brokkolímús með parmesan. Mig langaði að gera einhversskonar kryddgrjónablöndu og bera fram með kjúkling á spjóti en með þessu útbjó ég satay sósu og naan brauð. Þetta rann allt ljúft ofan í fólkið mitt og það var lítil lykt af blómkálinu eins og vill stundum fylgja ferska blómkálinu. Ég set hér með uppskrift af satay sósunni og grjónunum en Naan brauðið finnur þú hér. Ég myndi kalla þetta svona fusion af kínverskum og indónesískum rétt með snert af indverskum áhrifum.

Satay sósa:

 • 4 msk hnetusmjör MONKI
 • 2 msk Sukrin Gold
 • 2 tsk chili mauk, Blue Dragon t.d.
 • 2 dl vatn
 • 1/2 tsk hvítlauksmauk eða 2 rif
 • 1 msk Tamari soyasósa eða Liquid Amino, fæst á Iherb
 • svartur pipar eftir smekk

aðferð:

 • Setjið allt innihald í skaftpott og hitið.
 • Látið sósuna malla í dálitla stund og þynnið með vatni ef þörf er á.
 • Þessi sósa er geggjuð ofan á kjúkling, svínakjöt eða þessvegna sem pizzusósa en ég geri oft pizzur með sataysósu, kotasælu, papriku, blaðlauk og skinku.

Kryddgrjón:

 • 1 poki frosin blómkálsgrjón
 • 2-3 msk steikingarolía OLIFA eða avocado olía
 • 1 tsk hvítlauksmauk
 • 1 tsk engifermauk
 • 1 tsk turmerik
 • 1 tsk cumin
 • 1 msk karrý
 • salt og pipar
 • 1 kjúklingakrafts teningur
 • 2-3 stönglar vorlaukur, má sleppa en gefur gott bit og bragð
 • það mætti líka bæta við niðurskorinni papriku hér en má sleppa
 • salt eða Tamari soya sósa til að krydda með ef þarf

aðferð:

 • Hitið olíu og krydd á pönnunni í nokkrar mín til að kveikja í kryddinu.
 • Steikið lauk og papriku hér ef þið viljið, má sleppa.
 • Setjið næst blómkálsgrjónin saman við og hrærið reglulega
 • Gott er að leysa kjúklingakraftinn upp í smá soðnu vatni og hella svo yfir grjónin og sjóða niður. Hrærið reglulega svo grjónin brenni ekki í botninn.
 • Það má salta með Tamari sósu en það fer eftir smekk hvers og eins.
Þessar vörur fást í verslunum NETTÓ