Sítrónu baka með marengs

Já svona “Lemon marengue pie” er oft mjög freistandi á kaffihúsunum og það var einmitt eitt slíkt sem stöllur mínar fengu sér í Dublin nú á dögunum meðan ég slefaði yfir herlegheitunum. Ég ákvað þarna að reyna við þessa heima enda hef ég gert bæði marengs, lemoncurd og böku í öðrum uppskriftum svo því ekki að skella þeim saman í eina. Hér er útkoman. Það kom best út að kæla vel bökuna áður en lemoncurdinu var hellt ofan í. Leyfið curdinu að setjast og stífna aðeins í ískáp áður en marengs er sprautað yfir og bakað í ofni í 10 mín.

innihald baka:

 • 120 g möndlumjöl
 • 1 msk kókoshveiti
 • 100 g macadamiuhnetur
 • 60 g fínmöluð sæta Good good
 • 1/3 tsk salt 
 • 50 g smjör, ósaltað, kælt og brytjað niður í litla bita
 • 1 eggjahvíta eða um 20 g

aðferð:

 • Hitið ofninn í 170° með blæstri.
 • Smyrjið bökuform að innan með smjöri, best að nota form með lausum botni, líka hægt að nota silikon form t.d. lítil hjörtu og þrýsta þá deiginu upp á kantana.
 • Blandið saman í matvinnsluvél, möndlumjöli og macadamiuhnetum, sætu og salti. Bætið næst köldu smjörinu saman við og blandið vel saman. Thermomix 20 sek / hraði 6, smjörið saman við og endurtakið.
 • Eggjahvítan fer síðast út í og aftur blandað. Gott að kæla deigið í 1-2 klt ef þið hafið tíma, annars er hægt að dreifa deiginu í smurt kökuformið og þrýsta því vel upp á kantana. Það er líka hægt að fletja út kælt deigið milli tveggja laga af smjörpappír og leggja formið yfir og hvolfa því.
 • Stingið með gaffli í botninn á nokkrum stöðum. Bakið í ofni í 15 mín eða þar til kantarnir fara að verða gylltir. Takið út og látið kólna (skelin harðnar við kælingu).
 • Blandið fyllinguna á meðan bakan kólnar.

lemoncurd fylling:

 • 180 g ljóst Fiber sýróp
 • 1 tsk Xanthan gum
 • 3-5 sítrónur
 • 120 g smjör ósaltað
 • 3 egg

Lemoncurd úr Nicks sætu:

 • 160 g Nicks sæta 1:1
 • 1 tsk xanthan gum
 • börkur af 1/2 sítrónu
 • safi úr 3 sítrónum ca 125 g
 • 125 g ósaltað smjör
 • 4 eggjarauður

aðferð bæði í Thermomix og án:

 • Setjið sýróp( eða Nicks sætu)  og börk af einni sítrónu í matvinnsluvél og mixið saman. Ef notast er við Thermomix þá stillið þið á 20 sek / hraði 10.
 • Bætið við eggjum og sítrónusafa í skálina, ef þið notið ekki Thermomix þá má nota venjulegan pott.
 • Hitið á meðalháum hita og hrærið stöðugt í pottinum í 15-20 mín. Í Thermo er stillt á 6 / hiti 85° / hraði 2 án þess að hafa tappann í lokinu á.
 • Eftir eldunina er smjörið sett út í og maukað í Thermomixinu eða 25 sek / hraði 6. Ef þið notið aðrar aðferðir þá má t.d. nota töfrasprota til að mixa allt vel saman.Hellið Lemoncurdinu í hreinar krukkur og kælið. Passið að ekkert loft komist að sultunni, setjið plastfilmu yfir eða mjög þétt lok.

marengstoppur:

 • 130 g ljóst sýróp Fiber
 • 45 g eggjahvíta
 • 60 g fínmöluð sæta, Good good t.d. í blandara
 • 1 tsk vanilluduft eða vanilludropar
 • nokkur saltkorn

aðferð:

 • Byrjið á því að píska eggjahvítu, sætu, vanillu og sýrópi í hrærivélaskál yfir vatnsbaði.
 • Þegar blandan er farin að þykkna aðeins og hvítna þá má færa skálina yfir í hrærivél og þeyta í þónokkrar mínútur eða þar til þykkt marengskrem myndast.
 • Setjið marengs í sprautupoka og sprautið hæfilegum toppum ofan í bökuna yfir lemoncurdið.
 • Bakið nú bökuna á 180° með blæstri í 10 mín.

Ítalskur marengs með Nicks:

 • 90 g eggjahvítur eða um 3 stk
 • 50 g vatn
 • 170 g Nicks sæta

aðferð ítalskur marengs:

 • Stífþeytið eggjahvítur í tandurhreinni skál, gott að strjúka innan úr skálinni með ediki.
 • Setjið vatn í pott og síðan sætuna Nicks.
 • Látið suðuna koma upp og passið að það sjóði ekki upp úr, fylgist með en hrærið ekki í sírópinu. Þegar sætan hefur leyst upp þá er sírópinu hellt í örmjórri bunu út í eggjahvíturnar meðan þær þeytast áfram.
 • Gott er að gera þetta í litlum skömmtum svo eggjahvíturnar nái að halda lofti og þeytast vel.
 • Þegar marengsinn er stífur er hann settur í sprautupoka og sprautað yfir lemonkökuna. Fallegt er að brenna toppana með matreiðsluloga eða skella kökunni örstutt undir grill í ofninum.
Rétt áður en ég tók myndina þá datt sítrónu raspurinn ofan á marengsinn haha þetta getur gerst en bragðið er samt gott.
Gerði aðra tilraun og nú lenti enginn raspur ofan í kökubeyglunni 🙂