Skonsur & lemoncurd

Já þið heyrðuð rétt, skonsur og lemoncurd, svona eins og í bresku bíómyndunum. Það er eitthvað sérlega geggjað að gæða sér á nýbakaðri skonsu og ég á frekar erfitt með að standast þær t.d. á Starbucks en ég hef þraukað síðustu árin og bý mér til heimagerðar, sykurlausar og glúteinfríar skonsur um leið og ég fæ tækifæri til. Eftir að ég fékk Thermomix vélina þá hefur allt svona stúss verið ennþá auðveldara og nú nýlega rakst ég á uppskrift sem fylgdi græjunni að dásamlega einföldu Lemoncurd eða sítrónusultu sem er sjúllað að hafa með svona skonsudúllum.

Skonsur:

 • 60 g smjör
 • 80 g sýrður rjómi
 • 2 egg
 • 150 g möndlumjöl
 • 1 msk lyftiduft
 • 1 tsk Xanthan gum
 • 2 msk sætuefni
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 msk dökkt Fiber sýróp
 • 1/3 tsk gróft salt

Aðferð:

 • Hitið smjörið í potti og látið kólna. Bætið eggjum, sýrðum rjóma og sýrópi saman við og hrærið.
 • Blandið þurrefnum saman. Blandið þurrefnum og eggjablöndunni saman, hrærið vel með sleikju.
 • Setjið deigið í smurt muffinsform. Gott er að ná um 9-12 skonsum úr uppskriftinni.
 • Hitið ofn í 200 ° hita og bakið 10-12 mín eða þar til skonsurnar eru gylltar á lit. Kælið áður en skonsurnar eru skornar til helminga.
 • Það er ótrúlega gott að smyrja þessar með “clotted cream” eða smjöri og svo er lemoncurdsultan æðisleg með þessu.

Lemoncurd Innihald:

 • 180 g Fiber sýróp
 • 1 tsk Xanthan gum
 • 3-5 sítrónur
 • 120 g smjör ósaltað
 • 3 egg

Aðferð bæði með Thermomix og án

 • Setjið sýróp og börk af einni sítrónu í matvinnsluvél og mixið saman. Ef notast er við Thermomix þá stillið þið á 20 sek / hraði 10.
 • Bætið við smjöri, eggjum og 150 g af sítrónusafa í skálina, ef þið notið ekki Thermomix þá má nota venjulegan pott.
 • Hitið á meðalháum hita og hrærið stöðugt í pottinum í 15-20 mín. Í Thermo er stillt á 20 mín / hiti 90° / hraði 2 án þess að hafa tappann í lokinu á.
 • Eftir eldunina er allt sett á fullt í Thermomixinu eða 25 sek / hraði 6. Ef þið notið aðrar aðferðir þá má t.d. nota töfrasprota til að mixa allt vel saman.Hellið Lemoncurdinu í hreinar krukkur og kælið. Passið að ekkert loft komist að sultunni, setjið plastfilmu yfir eða mjög þétt lok.