Súkkulaðikaka með kúrbít

Það er ótrúlegt hvað grænmeti í bakstri gerir mikið og þar er kúrbítur alveg einstaklega sniðugur. Kúrbítur er mitt uppáhalds hráefni um þessar mundir hvort sem það er í kryddkökum, pizzum eða súkkulaðikökum. Það að auki nota ég kúrbít mikið í pastarétti enda algjör snilld að rífa hann niður í strimla og nota í staðinn fyrir hveitipasta.

Hér er uppskrift af dásamlegri kúrbítsköku sem kemur öllum á óvart. Það er líka hægt að helminga uppskriftina og gera einn góðan botn í hringlaga formi og skreyta með jarðaberjum. Einnig má setja deigið í múffuform og þá nær maður um 12 múffum úr uppskriftinni.

Innihald í köku:

 • 500 g kúrbítur
 • 120 g kókoshveiti
 • 220 g sæta, Good good og Sukrin gold t.d. í bland
 • 90 g kakó
 • 1 tsk kanell
 • 1 tsk matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • 110 g brædd kókosolía
 • 8 egg
 • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Rífið kúrbítinn niður með rifjárni eða í matvinnsluvél.Óþarfi að afvatna hann.
 • Blandið öllum þurrefnum saman, þvínæst eggjum, kókosolíu og vanillu, blandið svo öllu vel saman og gott að nota hrærivél eða Thermomix matvinnsluvél.
 • Hellið deiginu í skúffukökuform.
  Bakið á 170 ° með blæstri í 20-25 mín, tékkið öðru hverju með prjón og þegar hann kemur hreinn upp er kakan tilbúin.
 •  

Krem:

 • 250 g smjör
 • 150 g fínmöluð sæta Good good og Sukrin Gold
 • 40 g kakó
 • 2 tsk vanilludropar
 • möndlumjólk eða kalt vatn til að þynna með eftir smekk

Aðferð við krem:

 • Þeytið smjörið vel. Fínmalið sætuna sem notuð er í matvinnsluvél.
 • Þeytið allt vel með K spaðanum í hrærivélinni ef þið eigið slíkan. Þynnið kremið með möndlumjólk eða vatni ef þörf er á þar til það er loftkennt og fallegt.
 • Sprautið kreminu á kælda kökuna og berið fram með þeyttum rjóma.

Hér er sama uppskrift notuð til hálfs en kremið er sýrópskrem sem gert er úr sykurlausu sýrópi og eggjahvítu.