Skyrterta með piparkökumylsnu og karamellusósu

Ok Eva Laufey Kjaran og fleiri hafa nú verið að pósta endalausum piparkökutertuútfærslum og þar sem ég fékk senda áskorun um endurgera eitthvað af þessum dásemdum þá auðvitað tekur maður því og fer í málið. Það er sossum lítið mál að gera skyrtertur sykurlausar en botninn getur verið meira mál. Ég hafði minn einfaldan að þessu sinni, ég sá Fidó vinkonu baka sinn botn og brjóta niður eins og kex, en ég nennti ekki neinu brasi og hef hana óbakaða. Hita mjöl í potti með smjöri og kryddum og þjappa í formið. Þetta er því afar fljótlegur eftirréttur og uppskriftin nokkuð stór. Alveg hægt að helminga ef þið viljið gera minni útgáfu. En passar flott í stóra veislu eða saumó. Karamellusósuuppskriftin kemur frá Fido en ég helmingaði hana því mér fannst það hreinlega bara alveg nóg haha.

Botn:

 • 100 g smjör
 • 180 g möndlumjöl, H berg er fínt
 • 80 g Sukrin Gold
 • 1/2 tsk negull
 • 1 1/2 tsk kanill
 • 1 tsk engifer
 • 1/4 tsk múskat
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 1 tsk kakó

aðferð:

 • Hitið smjör og Sukrin Gold í potti þar til bráðnað.
 • Setjið þá þurrefnin saman við og hrærið kröftuglega.
 • Mylsnuna setjið þið svo í vítt fat eða skál og þjappið niður.
 • Útbúið næst fyllinguna:

Fylling:

 • 400 ml rjómi, þeyttur
 • 500 g Ísey skyr, vanillu eða Creme Brulee
 • 2-3 msk Sukrin Melis, smakkið til eftir hvaða teg af skyri er notuð
 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Þeytið rjómann.
 • Blandið svo skyrinu og sigtaðri sætu saman við ásamt vanillunni.
 • Hrærið vel saman með sleif og hellið fyllingunni ofan á kökubotninn.
 • Kælið í 2-3 klt og útbúið karamellusósu á meðan.

Karamellusósa:

 • 20 g smjör
 • 100 g Sukrin síróp
 • 125 ml rjómi
 • 30 ml vatn
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk gróft salt

aðferð:

 • Hitið smjörið fyrst í potti í 2-3 mín.
 • Bætið þá öllu öðru innihaldi í pottinn og náið upp suðu í nokkrar mín.
 • Látið síðan malla í ca 30-40 mín á meðalhita.
 • Kælið sósuna og hrærið reglulega í henni svo ekki myndist kekkir eða kristallar, gott að þynna með vatni ef hún er of þykk.
 • Hellið svo í mjórri bunu yfir skyrkökuna og berið fram.