Snúðakaka

Jæja nú er hálf þjóðin líklega búin að baka “cinnabons”, eða kanilsnúða á okkar ylhýra, af einhverri gerð í samkomubanninu og er þurrger uppselt víða í verslunum. Ég átti smá ger úr Nettó auðvitað til að leika mér með og prófaði að flippa uppskrift af snúðum frá Lindu Ben og útbúa mér mína eigin glúteinlausu, sykurlausu snúðaköku sem heppnaðist bara nokkuð vel. Ég prófaði bæði að gera ljósan glassúr á kökuna og svo aðra köku með súkkulaði frá Sukrin með salti og möndlum og það kom ótrúlega vel út og var mjög einfalt.

Snúðar:

 • 140 ml vatn

 • 80 ml rjómi

 • 7 g þurrger

 • 1 tsk sykur ( ath gerið étur upp kolvetnin í sykrinum)

 • 40 g sæta, má vera Sukrin eða Sweet like sugar

 • 80 g brætt smjör

 • 1 egg

 • 150 g FITUSKERT möndlumjöl FUNKSJONELL

 • 50 g kókoshveiti

 • 1 tsk lyftiduft

 • 1 tsk salt

 • 1 tsk xanthan gum

 • 1/2 tsk kardimommudropar
  1/2 tsk vanilludropar

Kanilfylling:

 • 80 g mjúkt smjör

 • 80 g sæta, Sukrin Gold eða Sweet like sugar

 • 2 msk kanell

aðferð:

 • Velgið rjóma og vatn í örbylgjuofni eða potti. Vökvinn á að vera álíka heitur og baðvatn en alls ekki of heitt. Bætið þurrgerinu saman við og hrærið vel. Setjið 1 tsk sykur saman við til að kveikja í gerinu. Gerið étur upp sykurinn. Takið til hliðar og geymið.
 • Blandið saman í hrærivél, eggi, sætu og smjöri og þeytið vel. Bætið vanillu og kardemommum saman við.
 • Setjið þurrefnin saman við og næst gerblönduna sem ætti að vera farin að bubbla dálítið. Hrærið eða hnoðið í hrærivélinni og látið svo deigið standa í 45 mín og hefast. Það er ekki víst að það nái mikilli lyftingu en gott að láta það samt taka sig áður en unnið er með það.
 • Gott er að setja olíu á fingurnar og fletja deigið út á silikonmottu. Leggið smjörpappír ofan á deigið og fletjið út með kökukefli.
 • Hrærið smjöri, sætu og kanel saman í þykkan graut.
 • Smyrjið kanilfyllingunni á deigið, rúllið því þétt upp og skerið niður í 12 jafnþykka snúða. Raðið þeim í smurt eldfast mót og látið standa í sirka 15 mín.
 • Bakið næst á 170° með blæstri undir og yfir í um það bil 25 mín, aðeins lengur ef þeir virðast ekki fullbakaðir. Ef snúðarnir fara að dökkna mikið þá má setja álpappír yfir, kókoshveiti á það til að verða ansi dökkt.

Glassúr:

 • 2 msk smjör

 • 1 msk rjómaostur

 • 100 g fínmöluð sæta

 • 1/2 tsk vanilludropar

 • 1-2 msk vatn

aðferð:

 • Hitið smjör í potti. Blandið sætunni varlega saman við og hrærið. Þynnið með vatni.
 • Setjið vanillu og rjómaostinn saman við og hrærið þar til kekkjalaust.
 • Smyrjið glassúrnum yfir volga snúðakökuna.

Súkkulaðiglassúr:

 • 2 stk af Sukrin súkkulaðistykkjum, ég notaði með salti og möndlum en líka hægt að nota aðrar týpur

Aðferð með súkkulaðiglassúr:

 • Einfalt, brjótið súkkulaðið í 12 bita.
 • Leggið hvern bita ofan á heita snúðakökuna, 1 á hvern snúð og látið bráðna hægt og rólega. Dreifið úr með skeið og bamm tilbúið.