Stafakakan hennar Olgu

Það er bara ein Olga saumakona og það er Olga okkar! Hún varð fimmtug þessi elska núna um daginn, ótrúlegt en satt og mér fannst tilvalið að vera með smá vesen. Reyndar var þetta ekkert vesen því það er frekar auðvelt að gera svona stafakökur sem eru svo vinsælar núna á samfélagsmiðlum. Það þarf bara góðan botn, passlegt form og svo nota ímyndunaraflið til að skreyta þetta á “lágkolvetna” hátt. Ég ætlaði að nota kökumixin frá Funksjonell í gulu pökkunum og held að það gæti verið stórsniðugt fyrir þá sem ekki eru að nenna botnum frá grunni svo er þetta bara skreytt með vanillurjóma, marengstoppum og berjum. Ég gat ekki hent neinu af kökunni svo ég bjó til nokkra kökupinna úr afskurðinum og blandaði saman við súkkulaðismyrjuna frá Good good. Bara hugmynd fyrir þá sem vilja ekki henda mat.

Innihald Botnar einn stafur:

 • 4 egg
 • 160 g sæta, t.d. Nicks eða Sweet like sugar
 • 4 msk möndlusmjör MONKI eða MONKI hnetusmjör fyrir þá sem þola jarðhnetur
 • 100 g smjör mjúkt
 • 40 g möndlumjöl
 • 10 g kókoshveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk kakó
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk salt
 • 50 g sykurlaust súkkulaði niðurbrytjað, en bara val, má sleppa

aðferð:

 • Hitið ofn í 180 ° með blæstri
 • Þeytið saman smjör og sætu vel og lengi eða þar til smjörið er orðið ljóst
 • Bætið möndlusmjöri eða hnetusmjöri saman við og þeytið áfram.
 • Bætið við eggjunum og þeytið þar til degið er létt og ljóst.
 • Þurrefnum og vanillu (súkkulaðibitum ef þeir eru notaðir) er næst bætt saman við deigið og því smurt í 20×35 cm form eða eitthvað álíka stórt sem er auðvelt að ná staf úr.
 • Látið deigið bíða í forminu í ca 15 mín og bakið svo, mjölið virðist draga betur í sig rakann og kakan lyftist betur.
 • Bakið kökubotninn í 20-25 mín og látið kólna.
 • Ef þið ætlið að gera tvo stafi þá þarf að baka annan skammt.

Toppur

 • 500 ml rjómi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 msk fínmöluð sæta

aðferð:

 • Þeytið rjómann með sætu og vanilludropum
 • Setjið í stóran sprautupoka með opnum stút og sprautið doppum á kökubotninn
 • Skreytið með marengstoppum sem má finna hér á blogginu undir marengs og mokkatoppar
  https://mariakrista.com/marengs-og-mokkatoppar/
 • Ef þið viljið gera kökupinna úr afskurðinum þá maukaði ég afskurðinn með 2 msk af súkkulaðsmjöri og mótaði kúlur, frysti og súkkulaðihúðaði með Cavalier súkkulaði.
 • Skerið niður jarðaber, bláber, hindber eða það sem hentar best.
 • Hellið svo yfir karamellusósu ef það hentar .

Karamellusósa:

 • 20 g smjör
 • 50 g sýróp dökkt Fiber, sykurlaust
 • 1/2 dl rjómi
 • 1/2 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið smjör og síróp saman í skaftpotti og látið sjóða í nokkrar mín
 • Bætið rjómanum við og hrærið, lækkið hitann og sjóðið niður
 • Þegar sósan er orðin fallega karmellulituð þá má taka af hellunni og kæla aðeins. Hellið svo yfir kökuna í mjórri bunu.