Súkkulaðibollakökur með kaffikremi

Þessar eru rosalegar og skemmtilega öðruvísi með djúsí kaffismjörkremi. Fyrir þá sem elska kaffi þá eru þetta THE BOMB. Ég reiknaði gróflega út að í hverri köku miðað við 12 stk úr uppskriftinni þá eru ekki nema 2 netcarb og það finnst mér ansi gott. Stór og flottur skammtur fyrir einn sem fullnægjir alveg sætuþörfinni. Já og koffínþörfinni líka.

Innihald kökur:

 • 100 ml brætt smjör eða kókosolía án bragðs
 • 50 g kakó
 • 5 egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk skyndikaffiduft
 • 50 g kókoshveiti
 • 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 120 g sæta
 • 1/3 tsk salt
 • 100 ml möndlumjólk

Aðferð:

 • Hitið ofninn í 170° með blæstri.
 • Þeytið saman egg og vanillu og bætið síðan saman við smjöri, kakó og kaffiduftinu.
 • Setjið næst kókoshveitið, sætuna, lyftidufti og salt og hrærið þar til létt. Hellið næst möndlumjólkinni saman við.
 • Deigið á að vera það þykkt að það sé hægt að moka því upp með skeið. Ekki fljótandi. Það er nauðsynlegt að nota gæða kókoshveiti í þessar.
 • Bakið kökurnar í 20 -25 mín.

Innihald krem:

 • 2 msk heitt vatn
 • 2 tsk skyndikaffiduft
 • 150 ml rjómi
 • 80 g Sukrin gold, malið fínt
 • 120 g smjör
 • 120 g rjómaostur

Aðferð krem:

 • Setjið heitt vatn og kaffiduft í skál og leysið upp.
 • Þeytið rjómann í skál og takið til hliðar.
 • Þeytið næst saman smjöri, rjómaosti og Sukrin gold þar til kremið er létt og ljóst, ef það kurlast upp þá er hægt að nota hárblásara til að mýkja það upp.
 • Ef það er of heitt og rennandi þá er hægt að setja ískaldan klút utan um skálina og kæla niður.
 • Hrærið nú saman við kaffiblöndunni og náið kreminu sléttu og felldu, blandið þá þeyttum rjómanum varlega saman við og þá er kremið klárt. Sprautið því á kældar bollakökurnar. Dustið yfir með kakói í sigti til að skreyta þær aðeins.