Súkkulaðimús í sparifötum

Ég átti afmæli á gamlaársdag og ákvað því að bera fram súkkulaðimús á tvo vegu en við vorum að fá nýtt hvítt Cavalier súkkulaði í búðina fyrir jólin og það varð að prófa það en ekki hvað. Ég notaði uppskrift af brownie hér af síðunni í botninn en í raun má nota hvaða lágkolvetnabotn sem er til að hafa sem grunn. Það má auðvitað gera bara hefðbundna mús í skálar en mér fannst eitthvað smart að gera svona tertu og notaði því sitthvort matarlímsblaðið í “mýsnar” eða músina sem fór ofan á. Þetta var ekki flókinn réttur og í raun bara mjög auðvelt allt saman, nema bíða eftir að kakan væri klár.

innihald:

 • 180 g dökkt súkkulaði Cavalier
 • 180 g ljóst súkkulaði Cavalier
 • 500 ml rjómi
 • 2 matarlímsblöð
 • 4 egg
 • 2 kúfaðar msk Sukrin Melis
 • vanilludropar eða koníak í brúnu músina, má sleppa

aðferð:

 • Bakið súkkulaðibotn skv uppskrift í háu springformi, t.d. Brownieuppskrift hér á blogginu, kælið
 • Þeytið rjómann og takið til hliðar.
 • Setjið egg í skálina og sætu og þeytið vel eða þar til létt og ljóst.
 • Setjið matarlím í ískalt vatn og látið mýkjast upp í 5 mín ca.
 • Bræðið súkkulaði í vatnsbaði, þegar það er bráðnað þá er helmingurinn af eggjablöndunni þeyttur saman við dökka súkkulaðið og hinn helmingurinn við ljósa.
 • Bræðið matarlímið í örbylgjuofni í nokkrar sek og deilið niður á sitthvora blönduna. Það er ekki nauðsynlegt að nota matarlím en ef kakan á að standa sjálf og vera stíf og fín er það betra.
 • Hrærið matarlíminu saman við eggja og súkkulaðiblönduna og að lokum skiptið þið rjómanum niður í hvora skál og hrærið með sleikju þar til allt er mixað saman.
 • Mér fannst gott að setja plastfilmu í hliðina á kökuforminu eða nota þartilgert ostakökuplast sem hægt er að smeygja utan um kökubotninn.
 • Hellið nú súkkulaðimúsinni yfir botninn og sléttið úr. Kælið í nokkrar mín og endurtakið með hvítu músina.
 • Kælið kökuna helst yfir nótt og skreytið daginn eftir með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði.
 • Þessi er bomba, B.O.B.A.