Súkkulaðiöbbakaka – Vinsæl

Kannast einhver við að fá allt í einu æði í eitthvað smá sætt eftir matinn en nennir ekki að baka heila köku. Bara ein sneið myndi bjarga kvöldinu?

Hér er mjög fín uppskrift af “öbba” köku sem gæti komið sér vel í þessum tilfellum. Kremið er hægt að gera í litlum blandara á örskotsstundu en kakan er líka góð bara með smá rjómaslettu. Uppskriftin er alveg ágætlega stór svo hún hentar fullkomnlega til að deila með þeim sem þér þykir vænt um. EÐA geyma til næsta dags í lokuðu boxi í ísskáp.

Innihald:

  • 1 egg

  • 2 sléttar msk kakó

  • 2 msk Sukrin gold eða önnur sæta

  • 1 msk rjómi

  • 2 msk brætt smjör, gott að bræða smjörið í örbylgjuvænu íláti

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1/3 tsk lyftiduft

  • saltögn

aðferð:

  • Pískið allt saman, gott er að bræða smjörið fyrst í því íláti sem kakan verður bökuð í og hella svo yfir í kökublönduna.
  • Hellið deiginu í silikonmuffinsform, 2 skálar, bolla eða notið örbylgjuboxið frá Sistema sem er algjör snilld.
  • Bakið á hæsta hita í örbylgjuofninum í 1 mín 20 sek, 1.30 ef þörf er á.
  • Á meðan kakan kólnar þá er hægt að henda í fljótlegt krem.

Innihald krem:

  • 50 g rjómaostur

  • 50 g rjómi

  • 1 tsk kakó

  • 1 msk fínmöluð sæta, Sukrin Melis t.d.

aðferð:

  • Skellið öllu saman í blandara og þeytið, gott að nota lítinn Nutribullet t.d. eða grípa í handþeytarann. Þetta er lítið magn og því fljótlegt verk.
  • Ef kakan er bökuð í einu lagi er hægt að kljúfa hana í tvennt og setja krem á milli “botna”
  • Njóta með þeyttum rjóma og kvöldinu er bjargað.
Það er líka hægt að sprauta kreminu á ef maður hefur tíma í slíkt vesen