Súkkulaðiterta með mokkakremi

Það er svo gaman að gera risatertur með fallegum skreytingum og ég er orðin ansi lunkin í margra hæða kökunum enda formin lítil og auðvelt að búa til margra hæða hnallþórur án þess að eyða allt of miklu hráefni í þær. Hér er ein með súkkulaðibragði og mokkakremi en kakan sjálf er dásamlega rík af súkkulaðibragði og minnir dálítið á franska súkkulaðiköku. Kremið er hið geggjaða marengssmjörkrem og nú með mokkabragði.

innihald Botn:

 • 360 gr 36% sýrður rjómi, 2 dósir
 • 100 g möndlumjöl ljóst
 • 150 g sæta Good good
 • 75 g kakó, t.d. Nóa Siríus
 • 65 g smjör
 • 50 g mct olía
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 2 egg
 • 1 1/2 msk vanilla
 • 1 msk skyndikaffiduft
 • 1/2 tsk salt

aðferð:

 • Þeytið saman sætu,smjör og olíu. Bætið sýrðum rjóma við ásamt eggjunum og þeytið þar til kekkjalaust.
 • Setjið þurrefnin saman og ég mæli alveg með því að setja þau í blandara til að fínmala möndlumjölið enn frekar.
 • Setjið saman við blautefnin og hrærið varlega saman.
 • Dreifið deiginu í smurð form og bakið í 170 gráðum í 15-20 mín, ekki ofbaka botnana. Mér fannst gott að láta deigið standa í 30 mín áður en ég setti í ofninn það kom vel út.

Smjörkrem með mokkabragði:

 • 225 ml Fibersýróp glært
 • 3 eggjahvítur eða um 90 g úr brúsa
 • 80 g fínmöluð sæta, ég nota Good good
 • 1 msk kakó, má sleppa
 • 1 msk skyndikaffiduft
 • 250 g ósaltað smjör
 • 1/3 tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar, eða bragð að eigin vali

aðferð:

 • Byrjið á því að setja upp pott með vatni og hitið. Setjið hrærivélaskál, gott að nota stálskál ef þið eigið slíka ofan á pottinn ( hafið pottinn það lítinn að skálin snerti ekki vatnið) og vigtið í hana sætu, sýróp og eggjahvítur.
 • Þeytið eða pískið saman þar til sætan hefur leyst upp í skálinni og blandan er hætt að þykkna.
 • Þurrkið nú skálina og færið yfir í hrærivélina. Setjið allt á fullan kraft.
 • Notið þeytarann á hrærivélinni.
 • Þegar marengs hefur myndast í skál og skálin orðin köld aftur eftir vatnsbaðið þá má setja smjörið saman við í litlum skömmtum. Skiptið yfir í K spaða ef þið eigið slíkan eins og fylgir mörgum standandi hrærivélum því smjörið þeytist betur með honum.
 • Smjörið á að vera kalt viðkomu en samt það mjúkt að það myndist dæld ef fingri er þrýst ofan í það.
 • Þeytið vel á milli hvers smjörbita og endurtakið þar til allt er komið saman við kremið.
 • Blandið næst bragðefnum við, t.d. skyndikaffinu, kakó og síðan salti og þeytið áfram.