Súkkulaðitrufflur

Súkkulaði súkkulaði.. alltaf svo gottt… En hér var ég að reyna að ná fram svona pralín effect eins og er í Nóa Siríus molunum. Eins prófaði ég að gera fyllingu eins og er í íslandsmolanum frá Nóa þessum með saltkaramellunni og það heppnaðist nokkuð vel. Ég nota sem sagt þessa truffluuppskrift sem grunn og svo er hægt að bragðbæta eins og maður vill. Ég prófað að setja smá mulið quinoa í eina tegund, muldi sykurlausar karamellur í eina og bætti við saltkaramellu sírópi ( Torani ) í eina fyllinguna. Það er samt líka vel hægt að nota bara grunnuppskriftina eins og hún kemur fyrir og velta upp úr kakói, súkkulaðihúða eða skreyta með möndluflögum, kókos, eða hverju sem er.

innihald:

 • 180 ml rjómi
 • 50 g smjör
 • 170 g sykurlaust súkkulaði, ég notaði dropana frá Cavalier
 • 40 g Sukrin Melis eða fínmöluð Good good sæta
 • 2 tsk koníak eða brandý ( má líka nota bökunardropa)
 • 1/2 tsk vanilla

aðferð:

 • Setjið súkkulaði í skál og setjið til hliðar.
 • Setjið rjóma, smjör og vanillu í pott og látið suðuna koma upp.
 • Hellið þá blöndunni yfir súkkulaðið, bætið sætunni við og hrærið í þar til allt hefur leyst upp. Bragðbætið með koníaki eða rommdropum ef þið viljið frekar.
 • Látið blönduna kólna í ískáp eða frysti með filmu yfir og þegar hún er orðin stíf þá er hægt að móta kúlur og velta upp úr hnetukurli, kakói, kókos eða því sem hentar.
 • Ég tók hluta af blöndunni og bætti við nokkrum möluðum karamellum t.d. Werthers og 15 g af quinoa og fyllti konfektmola með henni.
 • Ég prófaði líka að setja 1-2 msk af Salted caramel sírópi í hluta af trufflublöndunni og fyllt konfektmola með því.
 • Gangi ykkur vel í tilraunastarfsseminni.