Svínakjöt í mexíkótortillum

Já aftur var það Eva mín Laufey sem kveikti á tilraunaperunni og nú prófaði ég að gera “pulled pork” í mexíco pönnsum. Kjötið heppnaðist fullkomnlega og ég verð að segja að það munar um að elda það leeeengi, ekki bara í hálftíma eins og Júlíana gerði í matarboðsþættinum hjá Evu fyrir skömmu. En þetta fór snemma í ofninn og var lungamjúkt þegar komið var að mat. Ég setti kjötbitana síðan í Thermomix sem sér um öll leiðinleg verk á heimilinu og vélin reif kjötið huggulega niður fyrir mig og sparaði mér hellings tíma. Annars er það bara gaffallinn, ok ég er að selja Thermomix og auðvitað nota ég uppáhaldið mitt í svona jobb. Sósan sem ég bar fram með var sterk og góð þótt kóríander hafi hvergi fundist í búðinni en kóríander myndi fullkomna þennan rétt, kaupi það næst. Rauðkál í sýrðum rjóma, jebb fullkomið, ég sætaði það örlítið og svo voru það pönnsurnar. Ég gerði sirka 4 mismunandi uppskriftir til að finna út hvað væri best og að lokum heppnuðust þær. Ég steikti ca 9″ pönnsur á smurðri pönnu og engin slys urðu á pönnsum. Komu heilar út en ég mæli með að flippa þeim yfir á aðra heita pönnu og flýta þannig fyrir eldamennskunni.En jæja að uppskriftinni … þetta er æðislega gott.

Kjötið sjálft:

 • olía

 • 6 sneiðar af svínahnakka úrbeinuðum ca 800 g -1 kg

 • 1 gulur laukur

 • 1 rifinn hvítlaukur, ég nota Solo hvítlaukinn í körfunni
  eða nota 2-3 venjuleg rif

 • Krydd:

 • 2 tsk cumin Kryddhúsið

 • 2 tsk paprikudft ég nota Ungverskt frá Kryddhúsinu

 • 2 tsk allrahanda

 • 1 tsk hvítlauksduft

 • 1 msk Sukrin Gold

 • 1/2 tsk salt

 • 2 teningar kjúklingakraftsteningar muldir

 • 150-200 ml vatn

 • 2 msk Sambal Olek úr Nettó, Coop

 • handfylli ferskt kóríander, má sleppa ef þið viljið ekki og nota steinselju í staðinn

aðferð:

 • Hitið olíu í steyptum potti sem þolir að fara í ofn eða notið pönnu og flytjið síðan yfir í ofnfat. Steikið kjötið ásamt laukunum þar til brúnast.
 • Setjið næst, kjötið og laukana í ofnpott eða fat, blandið kryddum og saman og hellið vatni yfir ásamt sembal olek chilimaukinu. Kóríander er stráð yfir og blandað við kjötið, má sleppa ef þið þolið ekki kóríander.
 • Setjið lok á pottinn eða álpappír og hitið í 4-6 klst á 160° því lengur því betra.
 • Eftir að eldunartíma lýkur er kjötið rifið niður með tveimur göfflum eða sett í Thermomix ef þið eigið slíka græju og rifið niður á öfugum snúning.
 • Hellið sósusoðinu yfir ( ekki henda ) og njótið með pönnukökum, rauðkáli og dressingu.
Þetta er SOLO hvítlaukur

KetoTortillur, 4-6 litlar kökur:

 • 1 egg

 • 2 eggjahvítur

 • 1 dl vatn

 • 20 g kókoshveiti

 • 1 msk pofiber

 • 1 msk rjómaostur

 • 1/3 tsk chiliduft

 • 1/3 tsk hvítlauksduft

 • 1 tsk malað kóríander eða 2 msk ferskt smátt skorið

 • 1/3 tsk lyftiduft

 • 1/2 tsk salt

aðferð:

 • Blandið öllu vel saman í blandara eða með handþeytara
 • Hitið vel 2 pönnur og spreyjið þær með feiti, kókos eða avocado
 • Hellið deigi á pönnuna, gott að hafa pönnsurnar um 9″ ca látið þær bakast vel áður en þær eru losaðar af pönnunni, best að nota viðloðunarfríar. Flippið yfir á aukapönnuna og endurtakið leikinn.

Rauðkálssalat:

 • 200 g rauðkál smátt skorið

 • 60 g sýrður rjómi eða Sigga Hlö sósan sem var mjög góð með

 • 1 tsk Sukrin gold síróp

 • salt eftir smekk

 • ferskt kóríander 10-12 greinar

aðferð:

 • Skerið rauðkálið smátt.
 • Blandið við sýrða rjómann eða Sigga Hlö sósuna.
 • Bæti sírópi, kóríander og salti við og blandið saman.

Köld Chilisósa:

 • 150 g sýrður jómi 18%

 • 1 kúfuð msk Sambal Olek úr Nettó, Coop

 • 1/3 tsk Cumin, Kryddhúsið

 • salt og pipar

 • nokkrir dropar af stevíu eftir smekk, má sleppa

Aðferð:

 • Hrærið öllu vel saman og njótið.
 • Setjið svo sósu á tortillurnar, ferskt kál, svínakjöt, rauðkál og meira af sósu og borðið með bestu.