Tartalettur

Það þekkja það nú margir að nota tartalettur í forrétt í kringum jólin og í veislum en þær eru því miður með hveiti og glúteini og því erfiðara að nota þessar hefðbundnu á lágkolvetna mataræðinu. Þessar eru gerðar úr sesammjöli og fituskertu möndlumjöli og smakkast bara hreint út sagt vel. Það er smá dúllerí að fletja út og allt það en með smá lagni og þolinmæði er hægt að finna staðgengil að tartalettum undir hversskonar fyllingu. Þær eru snilld t.d. með aspas og hamborgarahrygg, afgang af kalkún og sósu, hangikjöti og ostasósu, fiskrétt eða rækjum.

innihald:

 • 160 g möndlumjöl fituskert Funksjonell
 • 40 g kókoshveiti
 • 20 g Sesammjöl
 • 1/2 tsk Xanthan Gum
 • 1/3 tsk salt
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 180 g ískalt smjör

aðferð:

 • Blandið vel saman þurrefnum í skál.
 • Skerið smjör í litla bita og bætið út í þurrefnin, best er að gera þetta í matvinnsluvél og mala smjörið í nokkrum stuttum skrefum á miklum hraða þar til mylsna myndast í skálinni.
 • Setjið “deigið” í plastfilmu og geymið í kæli í lágmark 2 klst, en best yfir nótt.
 • Fletjið þá degið út, það þarf aðeins að mýkjast á borði áður en rúllið svo út eins þunnt og hægt er að skerið út hringi úr deiginu.
 • Gott er að skera fláa upp að miðju hrings og brjóta deigið inn eins og kramarhús til að koma því ofan í form, ég notaði silikon muffinsform að þessu sinni. Þrýstið deiginu vel út í hliðarnar og lagið með deigi ef myndast göt.
 • Pikkið með gaffli í botninn á tartalettunum og bakið svo í 15 mín ca á 180° hita með blæstri, fylgist með að deigið dökkni ekki um of og stundum er gott að setja álpappír yfir formið til að varna því að kökurnar brenni að ofan.
 • Látið kökurnar kólna takið þær úr silikonforminu, fyllið með heitri fyllingu að eigin vali setjið rifinn ost t.d. yfir og skellið undir grillið í 3-5 mín áður en borið er fram.