“Twix” súkkulaðistykki- Vinsæl

Fyrst voru það snickersbitarnir, marsstykkið og nú Twix ? Já það er ekkert flókið að vera á sykurlausu mataræði þegar hægt er að útbúa svona mikið af góðgæti til hátíðarbrigða. Já ég segji spari því allt ketónammi getur ruglað í kerfinu okkar og kallað á meira af sætindum hjá einhverjum. Þó er það ekki algilt en hver og einn metur það fyrir sig. Ég reyni að spara mér nammið og eiga í frysti en næli mér í einn og einn mola þegar ég fæ einhverja þörf. Þetta Twix nammi er ekki ósvipað og marsstykkið en botninn er bakaður í þessari uppskrift.

Innihald botn:

  • 120 g möndlumjöl hefðbundið

  • 60 g mjúkt smjör

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1/3 tsk xanthan gum, má sleppa en molnar minna

aðferð:

  • Hitið ofninn í 170 gráður
  • Blandið saman möndlumjölinu og smjöri, vanilludropum og xanthan gum þar til deig myndast. Þrýstið deiginu í grunnan silikonbakka eða form með smjörpappír, ágætt að deigið sé ekki mikið þykkara en cm. Líka hægt að nota brauðform.
  • Bakið botninn í 15 mín og látið síðan kólna á meðan karamellan er gerð.

Karamella:

  • 120 g sykurlaust Sukrin gold síróp eða Good good

  • 40 g smjör

  • 50 g rjómi

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 160 g sykurlaust súkkulaði til að hjúpa, Nicks, cavalier, Sukrin

  • 1/2 tsk kókosolía

aðferð:

  • Setjið smjör og síróp í pott og látið suðuna koma upp og bubbla. Bætið rjóma í og vanillu og látið karamelluna malla í 30 mín lágmark á meðalhita. Passið að hún brenni ekki né sjóði upp úr. Ef notast er við Thermomix þá hef ég stillt á 35 – 40 mín / 120 gráður / sleifarsnúning
    en hitastigið getur verið breytilegt í potti svo tíminn gæti verið styttri. Þegar karamellan er tilbúin er henni hellt yfir bakaða botninn og öllu skellt í frysti í klt allavega.
  • Bræðið nú súkkulaði og kókosolíu og hrærið þar til slétt og fellt. Best er að nota gúmmíhanska við að hjúpa bitana.
  • Skerið Twixið í lengjur og húðið hvern bita, leggið á smjörpappír og frystið aftur. Njótið síðan í hóflegu magni haha, gangi ykkur vel.