Græna ídýfan

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við MS- Gott í matinn sem treystu mér fyrir hráefnum sínum.

Mér finnst eðla alltaf tjúlluð en langaði að prófa meiri ostaídýfu með chilibragði og þessi kom þrusuvel út. Ég hef séð marga nota jalapenos á erlendum matarvefjum en þar sem hann er ekki alltaf til þá skellti ég grænum chili út í ásamt vorlauk og papriku, s.s. allt voða grænt. Þetta hentar mjög vel sem ídýfa með sellerí eða ostasnakki, ostur með osti það hljómar nú vel. Mæli með að þið prófið. Þetta er nokkuð stór uppskrift, alveg fyrir stórt partý, helmingið ef þið eruð bara tvö/tvær/tveir í kósý.

innihald:

 • 1 dós sýrður rjómi 36% MS
 • 400 g rjómaostur þessi í bláu dollunum MS
 • 4 vorlaukar
 • 1 græn paprika, má nota rauða ef þið þolið ekki grænan lit
 • 3 grænir chilibelgir án fræja
 • 200 g cheddar ostur, gerir mikið
 • 200 g Mosarella ostur MS
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1/2 tsk svartur pipar
 • 1/2 tsk paprika
 • 1/2 tsk salt

aðferð:

 • Hitið ofninn í 180 gráður
 • Blandið saman öllum hráefnum en geymið nokkrar msk af rifnum mosarella og paprikubitum til hliðar.
 • Þeytið saman með handþeytara eða hrærivél til að blanda vel saman öllum ostunum.
 • Smyrjið blöndunni í eldfast mót og sléttið úr með sleif.
 • Dreifið afgangsostinum yfir ásamt paprikunnni og hitið í ofni í ca 20-25 mín.
 • Berið fram með uppáhaldssnakkinu ykkar, lágkolvetna eða ketó, gott með purusnakki, sellerí, ostasnakki eða heimagerðu mexíco snakki. Uppskrift af slíku er hér á blogginu undir millimál:
  https://mariakrista.com/mexiko-snakk/