Hvítkáls risotto í Thermomix

Svepparisotto er einn réttur sem fer alveg með mig ef ég sé hann á matseðli. Mér finnst það ægilega gott sko. En nei hrísgrjón eru ekki æskileg enda full af sterkju og kolvetnum sem rífa upp blóðsykurinn og það viljum við forðast. Ég ákvað nú í dag að fara að auka aðeins grænmetisskammtinn því skv Dr. Berg sem er Ketó gúrú þá mælir hann með 7-10 bollum af grænmeti á dag hvorki meira né minna og þá er hann að tala um “æskilega grænmetið” og að það sé best að byrja að borða grænmetið sitt, fá sér góða fitu með og hafa próteinið í minna hlutfalli. Ég ákvað því að fá mér hvítkál í kvöldmatinn og útbúa það eins og risotto. Ég notaði vélina góðu en það má líka nota aðrar matvinnsluvélar og auðvitað pott eða pönnu.

Risotto úr hvítkáli:

 • 500 g hvítkál
 • 30 g vorlaukur
 • 1 kjúklingateningur
 • 150 g sveppir
 • 40 g smjör
 • 10 g ólífuolía
 • 30 g hvítvínsedik
 • 600 g vatn
 • salt og pipar
 • 100 g rjómaostur
 • 40 g parmesanostur

aðferð með Thermomix:

 • Setjið hvítkálið í skálina í grófum bitum, saxið 10 sek / hraði 5, hjálpið til með sleifinni.
 • Hellið vatni saman við og setjið kjúklingateninginn út í
 • Sjóðið 15 mín / 100° / hraði 1 á öfugum snúning
 • Hellið soðnu kálinu í sigtið og látið soðið enda ofan í skál eða íláti og takið það til hliðar.
 • Setjið lauk og sveppi í skálina saxið 3 sek / hraði 5
 • Bætið við smjöri og ólífuolíu svissið, 3 mín / hiti 120°/ hraði 1
 • Bætið nú hvítkálinu saman við grænmetið ásamt 1 dl af soði og hvítvínsedikinu.
 • Sjóðið 10 mín / hiti 100° / hraði 1 á öfugum snúning og hafið sigtið ofan á skálarlokinu í stað mæliglassins.
 • Hellið nú mesta vökvanum úr skálinni, bætið parmesanostinum saman við hvítkálið ásamt rjómaosti og hrærið 2 mín / 100°/ hraði 3 á öfugum snúning.
 • Saltið og piprið eftir smekk. Berið fram með parmesanosti og ketóvænu hvítlauksbrauði.
 • Það er auðvitað hægt að borða réttinn með steiktum kjúkling t.d. eða kjöti eða jafnvel grilla pylsur með honum.
Nóg að grófhakka hvítkálið svo það líkist grjónum