Júróbomba

Þessi sló rækilega í gegn á fyrri júrókeppninni en hún er auðvitað í fánalitunum, stútfull af gúmmelaði, marengs, kókosbollukremi og súkkulaði ásamt bláberjum og jarðaberjum. Þetta er í raun samsuða úr tveimur uppskriftum og lítið mál að græja fyrirfram. Mætti þess vegna frysta marengsinn og rjómann og skella svo saman rétt áður en þetta fer á júróborðið á laugardaginn.

Marengs:

 • 280 g Fiber sýróp ljóst
 • 90 g eggjahvíta, samsvarar 3 hvítum
 • 20 g Sukrin Gold
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar

aðferð marengs MEÐ THERMOMIX eða í vatnsbaði:

 • Þrífið vel skálina með ediki til að engin fita leynist í henni.
 • Setjið allt innihald í skálina og stillið á 15 mín / hita 37°/ hraði 4 og notið fiðrildaspaðann eða þeytarann s.s.Leyfið vélinni að vinna og munið að hafa tappann ekki í lokinu. Ef þið notið hrærivél þá er gott að hita aðeins blönduna yfir vatnsbaði áður en þið hrærið í standhrærivél.
 • Hitið ofn í 100° með blæstri.
 • Sprautið marengs í doppur á smjörpappír eða silikonmottu
 • Bakið marengs í 2 tíma til að hann þorni örugglega nóg.

Kókosbollukrem:

 • 110 g ljóst sýróp Fiber
 • 1 eggjahvíta
 • 40 g fínmöluð sæta, Good good í blender eða nota Sukrin Melis
 • 50 g kókosmjöl
 • 1/2 tsk vanilluduft eða vanilludropar

aðferð:

 • Byrjið á því að píska eggjahvítu, sætu og sýróp í hrærivélaskál yfir vatnsbaði. Hér má setja vanilludropa ef þeir eru notaðir.
 • Þegar blandan er farin að þykkna aðeins og hvítna þá má færa skálina yfir í hrærivél og þeyta í þó nokkrar mínútur eða þar til þykkt marengskrem myndast.
 • Bætið þá við 50 g af kókosmjöli og vanilludufti, ef þið notið það frekar en dropa og blandið varlega saman með sleikju.
 • Setjið fyllinguna í sprautupoka og sprautið hæfilegum toppum á réttinn.

Samsetning:

 • 250 ml rjómi
 • 50 g pekanhnetur smátt skornar
 • 2 Sukrin súkkulaði hreint
 • kókosflögur eftir smekk
 • bláber
 • jarðaber
 • hindber, allt eftir smekk

Aðferð:

 • Setjið þeyttan rjóma í skál, raðið marengstoppum ofan í og meira af þeyttum rjóma yfir.
 • Dreifið berjum yfir blönduna og sprautið svo kókosbollukreminu hér og þar á milli
 • Stráið söxuðu súkkulaði og hnetum yfir og að lokum dreifið grófum kókosflögum yfir allt.
 • Þetta má geyma í kæli eða bera fram strax og já þetta er algjör bomba.