Kjötsúpa Kristu

Það er ekkert betra en heit kjötsúpa á haustin og um að gera að nýta sér uppskeru sumarsins eins og íslenskt hvítkál og gulrætur. Það eru 7 g af kolvetnum í 100 g af gulrótum og ég leyfi mér alveg nokkra gulrótabita út í súpuna stöku sinnum. Í stað þess að nota kartöflur og rófur hef ég sett sellerírót (6 g kolv í 100 g ) í súpuna og nota svo blaðlauk og grænar baunir til að gera hana fallega á litinn.

Það er alveg hægt að fara í kringum hlutina til að geta notið þess sem maður er vanur og kjötsúpa er í grunninn hin besta ketófæða, feitt kjöt, beinasoð og hollt grænmeti. Gæti ekki verið betri matur.

Í þessari uppskrift er sellerírót og hvítkál í aðalhlutverki og gulrætur meira upp á punt. Ég notaði síðan smá hvítlauk og blaðlauk sem ég svissaði upp úr smjöri og það koma óskaplega vel út. Mæli með að prófa.

Annars hef ég lítið verið að setja inn af nýjum uppskriftum upp á síðkastið vegna byggingaframkvæmda eins og einhverjir hafa tekið eftir. Ég hlakka mikið til að geta farið að malla í nýju eldhúsi á nýrri efri hæð en það er alltaf eitthvað að gerast á hverjum degi svo það mun ekki líða langur tími þar til ég fæ tækifæri til að sýna ykkur. Annars nota ég vefinn sjálf óspart þessa daga og get útfært flestar uppskriftir fyrir Thermomix og Airfryer en það eru einu tækin sem virka á framlengingarsnúru þessa dagana.

Innihald:

  • 1.5 líter vatn

  • 1 lítill gulur laukur

  • 1 solo hvítlaukur

  • 10 cm blaðlaukur

  • 2 msk smjör

  • 250 g sellerírót

  • 100 g frosnar grænar baunir

  • 1/2 hvítkálshaus smátt skorinn

  • 150 g af gulrótum

  • 1 kg af feitu lambakjöti, t.d. lambaframhryggssneiðum

  • 1 msk salt, ég notaði lífssaltið

  • 1/2 tsk hvítur pipar

  • 2 lambakrafts teningar

  • 2-3 msk súpujurtir, má sleppa

  • fersk steinselja ef þið viljið

Aðferð:

  • Svissið laukana og hvítkálið upp úr smjörinu. Bætið við vatni og lambakraftsteningum og setjið kjötið út í . Látið sjóða í 30 mín og fleytið ofan af brúnu froðunni.
  • Bætið nú grænmetinu saman við, kryddið og látið súpuna malla í 20-30 mín.
  • Smakkið súpuna til, sumir vilja hafa hana vel salta þar á meðal ég og ég setti alveg rúmlega af salti í hana. Gaman er að bæta við smá ferskri steinselju upp á litinn.