Kjúklingaborgarar

Þessir slá alltaf í gegn, þeir eru bæði djúsý og kryddaðir og ég fæ alltaf hrós þegar ég ber þá fram. Það er auðvelt að útbúa þá í kröftugum blender og að sjálfsögðu nota ég Thermomix í að útbúa mína. Ég mæli svo með því að steikja á pönnu og skella þeim svo í ofninn til að fullelda. Gott að útbúa hamborgarbrauð með eða nota stór salatblöð undir.

innihald:

 • 600 gr úrbeinuð kjúklingalæri/bringur/kjúklingahakk
 • 100 gr rifinn mosarellaostur, má líka nota bragðsterkari ost
 • 3 stilkar sellerý
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 egg
 • salt
 • pipar
 • 1/2-1 dl hot sauce, t.d. Buffalosósa frá Flóru
 • 100 gr beikon óeldað en frjálst að steikja aðeins áður
 • 3 msk niðurskorinn jalapeno eða rauður chilli

aðferð:

 • Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og blandið, ágætt að byrja á grænmetinu og taka til hliðar, hakka svo kjúklinginn smátt og blanda að lokum saman ef þið eigið ekki mjög kraftmikla matvinnsluvél. Það er líka hægt að kaupa kjúklingahakk í þetta.
 • Setjið í kæli í ca hálftíma því það er auðveldara að móta deigið kalt.
 • Steikið borgarana á pönnu í smá olíu.
 • Gott að setja þá svo í eldfast mót í 10 mín til að fullelda kjúklinginn á 220° hita á blæstri.
 • Æðislegt að bera fram í Tortillubrauði, heimatilbúnu hamborgarabrauði með sætri chillisósu og avocado, salati og rauðlauk.
 • Svo má alltaf nota salatblað utan um borgarana.