Kjúklingasúpa með kúrbít

Á gamla blogginu mínu var ég með súpu sem greinilega hefur slegið í gegn því ég var beðin um að finna hana fyrir eina sem fylgir mér á instagram en ég gróf hana upp á blogginu og prófaði hana í gær til að rifja upp og já hún er mjög bragðgóð svo ég skil viðkomandi. Meira að segja sonurinn borðaði með bestu lyst og hann er nú ekki fyrir hvað sem er. Hún er með kúrbít sem þykkir hana og svo krydda ég hana vel með karrý og chili.

innihald:

 • 4 kjúklingabringur skornar í bita
 • 1 solo hvítlaukur eða 3 hvítlauksgeirar
 • 1 blaðlaukur
 • 30 g smjör
 • 150 g kúrbítur
 • 1 dós tómatar, Mutti eru góðir
 • 150 g rjómaostur
 • 150 ml rjómi
 • 700 ml vatn, þynnið meira í lokin ef þörf krefur
 • 1 kjúklingakraftsteningur
 • 1 rautt chili
 • 2 msk karrý
 • 1 msk paprikuduft
 • 2 msk felix tómatasósa með stevíu, ef þið viljið sætara bragð
 • salt og pipar

aðferð með Thermomix:

 • Setjið blaðlauk og hvítlauk í skálina og saxið 5 sek/hraði 5
 • Bætið við smjöri og steikið 3 mín / hiti 120°/hraði 1
 • Bætið við kúrbít og chili og saxið 5 sek / hraði 5
 • Kryddið og bætið tómatdós og vatni saman við
 • Sjóðið 5 mín / hiti 120°/hraði 2
 • Blandið súpuna 1 mín / hraði 6
 • Bætið við kjúkling og sjóðið 20 mín / hiti 100°/öfugur snúningur sleifarhraði
 • Bætið rjóma og rjómaosti við þegar um 5 mín eru eftir af eldunartímanum.
 • Berið fram með góðu brauði eða brauðstöngum.

hefðbundin aðferð:

 • Steikið aðeins lauk, hvítlauk og krydd í smjöri.
 • Setjið svo grænmetið allt út í og steikið ögn lengur.
 • Því næst fer vatnið og allt krydd út í pottinn og látið allt malla saman í nokkrar mínútur.
 • Hér setti ég töfrasprotann aðeins í súpuna.
  Finnst auðveldara að koma henni ofan í börnin ef þau finna ekki fyrir grænmetinu.
 • Þar næst fara kjúklingabitarnir út í (óeldaðir) og allt látið malla þar til kjúllinn er eldaður í gegn. 20 mín ættu að duga.
 • Rjóma og rjómaosti bætt út í lokin og hrært. Þynnið með vatni ef þörf krefur.
Fallega brettið undir súpunni er úr Nettó
Geggjaðar brauðstangir með