Kúrbítspizza

Ég veit ekki hversu margar týpur af pizzum ég hef gert í gegnum tíðina, blómkáls, osta, hakkpizzur og fleira fróðlegt. Kúrbítspizza er hins vegar í uppáhaldi þessa dagana og ég fæ ekki nóg. Það er ótrúlega fljótlegt að henda í eina slíka og dugar ein 12″ pizza vel fyrir mig og eiginmanninn. Það verður yfirleitt afgangur meira að segja ólíkt því þegar við gátum slátrað 16″ hveitipizzu á engum tíma án þess að blikna. Líðanin á eftir var hinsvegar gjörólík. Maginn er sáttur í dag svo ég tali nú ekki um næringargildið sem er töluvert gáfulegra. Ég er hrifnust af því að nota sveppasmurost sem álegg í stað pizzusósu en baka tómata sem ég hef ofan á í staðinn ásamt parmaskinku, ruccola og rifnum parmesan osti. Þetta er dásamlega gott, trúið mér.

Innihald:

 • 500 g kúrbítur
 • 200 g rifinn ostur
 • 1 solo hvítlaukur eða 2 hvítlauksrif
 • 1 tsk oregano
 • 1 tsk heitt pizzakrydd
 • 1 egg

Aðferð:

 • Hitið ofn í 180 ° hita með blæstri.
 • Rífið kúrbítinn niður, annaðhvort í Thermomix, 20 sek/ hraði 5 eða með rifjárni/matvinnsluvél.
 • Setjið kúrbítinn í netapoka, t.d. grisju fyrir grænmeti, fæst í matvöruverslunum. Kreisti vökvann alveg úr kúrbítsmaukinu.
 • Setjið hvítlauk í matvinnsluvél, Thermomix, 10 sek/hraði 5, bætið osti, kryddi og eggi við að blandið aftur 10 sek/hraði 5.
 • Færið ostahræruna á bökunarpappír og mótið pizzubotninn.
 • Bakið nú í 15 mín, takið botninn úr ofninum og snúið við.
 • Setjið álegg að eigin vali á botninn. Ég nota sveppasmurost og rifinn ost. Hita pizzuna aftur í 10 mín á 220° tek hana út, dreifi ruccola, parmaskinku, og bökuðum tómötum yfir og að lokum ríf ég niður parmesan ost yfir allt. Fullkomna síðan pizzuna með OLIFA olíu, Bio eða Puglia. Dálítill svartur pipar og salt gera svo gæfumuninn.