Marengs og mokkatoppar

Það getur verið smá bras að ná fram góðum marengs á lágkolvetnamataræðinu. Sætan freyðir dálítið og marengsinn á það til að falla í ofninum. Ég rakst hinsvegar á aðferð við að gera marengs úr sýrópi og hann svínvirkar. Marengsinn verður stökkur og ef það er settur á hann rjómi og ávextir þá bráðnar hann í munni. Ég mæli þó með því að sprauta honum í hring ef það á að gera heila tertu. Það mætti líka sprauta litlum toppum á smjörpappír og brjóta marengsinn niður í berjabombu sem er þá úr muldum marengs, berjum og rjóma. Ég notaði ljósa og dökka sýrópið í prufur og var ljósa sýrópið að stífna ögn betur en það dökka. Bragðið er samt gott af báðum gerðum svo ég mæli með því að prófa. Ef þið viljið gera ekta sýrópstyggjókrem þá notið þið marengsinn óbakaðann á kökur. Alveg truflað gott krem. Hér fyrir neðan er svo líka uppskrift af góðu mokkakremi sem hægt er að nota á marengstoppa, eða á tertur.

Innihald grunnmarengs:

 • 250 g sýróp Fiber ljóst eða dökkt
 • 1 eggjahvíta
 • 1 msk sæta fínmöluð

aðferð:

 • Þeytið saman yfir vatnsbaði í 5 mínútur þar til allt er vel blandað saman.
 • Færið yfir í hrærivél og þeytið áfram þar til stífir toppar myndast.
 • Setjið marengs í sprautupoka og sprautið toppum á smjörpappír.
 • Bakið í 2 klt á 90°hita.
 • Takið marengsinn út úr ofni og látið kólna alveg áður en hann er losaður af smjörpappírnum.

Innihald mokkakrem:

 • 1 espresso bolli
 • 1 tsk skyndikaffiduft
 • 80 g sæta fínmöluð EÐA 100 G SUKRIN GOLD SÍRÓP
 • 2 eggjarauður
 • 150 g smjör, mjúkt

aðferð við mokkakrem:

 • Hitið sætuna í potti saman við espressobolla og skyndikaffi þar til suðan kemur upp.
 • Þeytið eggjarauðurnar í hrærivél þar til léttar og ljósar. Hellið sýrópskaffinu í mjórri bunu ofan í eggjarauðurnar og þeytið vel þar til þær eru fullþeyttar.
 • Blandið næst smjörinu saman í litlum skömmtum og þeytið alveg þar til stíft, gott að nota Z spaðann.
 • Þegar smjörkremið er tilbúið þá má setja það í sprautupoka og sprauta á marengstoppana.
 • Leggið svo tvo og tvo hluta saman. Þetta er geggjaður smábiti með kaffinu. Best að borða strax, geymist ekki lengi í kæli en væri hægt að frysta.