Marengs-smjörkrem

Já sæll þetta klikkar ekki. Það er geggjað að gera fallegt smjörkrem á kökur og ég slefa hreinlega yfir fallegu kökumyndunum hjá Baunin mín og Hendur í höfn þessa dagana. Ég mun alrei ná þeirra tækni en með smá lagni og góðum sprautustútum þá er hægt að gera frambærilegar bollakökur og tertur og það verður mín áskorun í lífinu, allavega næstu vikurnar. Ég verð að sýna ykkur hér myndir frá þessum snillingum og vonandi fæ ég að heimsækja þær á næstunni og kannski læra nokkur trikk.

Hér fyrir neðan er svo uppskrift af dásamlegu sykurlausu marengs-smjörkremi sem er orðið ansi bragðgott eftir nokkrar tilraunir og fórnir allnokkurra smjörstykkja. Þetta krem má bragðbæta með piparmyntu, kakó, vanillu, kaffi eða hverju því sem hentar hverri tertu. Það er hægt að nota kúrbítskökubotninn sem er alltaf góður eða gera uppskrift af bollakökum. Ég skreytti t.d.bollakökurnar með kreminu og notaði þá þessa uppskrift 

Þetta eru terturnar frá Bauninni. Veislu og tertuþjónustu sem bakar vegan veislutertur. Þau segja hér í lýsingu á facebook síðu sinni:
Við erum ein af fáum fyrirtækjum sem nota aðeins náttúruleg litarefni í vörum okkar. Við teljum það öruggari valkost að borða og vænna fyrir umhverfið. Við notum einnig hágæða innihaldsefni og bjóðum upp á náttúrulegri leið til að lifa.

Hér eru svo kökurnar frá henni Dagný í Hendur í Höfn en þvílík veisla krakkar !!! Þær eru hver annarri girnilegri og eins og ég segji, það er langt í að maður nái þessari tækni en vá hvað það væri gaman.

Af síðunni hjá Hendur í Höfn sem er kaffihús í Þorlákshöfn:

Hjá okkur eru allar veitingar lagaðar frá grunni og einungis notast við besta hráefni sem völ er á, að mestu beint frá býli og okkar nærumhverfi . Nýbakaðar kökur og brauð eru á boðstólum daglega ásamt næringaríkum matmiklum súpum, hamingjulokum, fiski dagsins, Hamingjuborgurum og ýmsum öðrum veitingum. Sérþörfum viðskiptavina sinnt eftir okkar bestu getu og áhersla er lögð á að sinna flestum ofnæmis- og lífstílshópum. Maturinn okkar er ávallt hveitilaus nema annað sé tekið fram.

Ingredients

 • 225 ml Fibersýróp glært

 • 3 eggjahvítur eða um 90 g úr brúsa

 • 80 g fínmöluð sæta, ég nota Good good

 • 250 g ósaltað smjör

 • 1/3 tsk salt

 • 1 tsk vanilludropar, eða bragð að eigin vali

Fibersýrópið góða lítur svona út og fæst t.d. hér

Directions

 • Byrjið á því að setja upp pott með vatni og hitið. Setjið hrærivélaskál, gott að nota stálskál ef þið eigið slíka ofan á pottinn ( hafið pottinn það lítinn að skálin snerti ekki vatnið) og vigtið í hana sætu, sýróp og eggjahvítur. Þeytið eða pískið saman þar til sætan hefur leyst upp í skálinni og blandan er hætt að þykkna.
 • Þurrkið nú skálina og færið yfir í hrærivélina. Setjið allt á fullan kraft. Notið þeytarann á hrærivélinni.
 • Þegar marengs hefur myndast í skál og skálin orðin köld aftur eftir vatnsbaðið þá má setja smjörið saman við í litlum skömmtum. Skiptið yfir í K spaða ef þið eigið slíkan eins og fylgir mörgum standandi hrærivélum því smjörið þeytist betur með honum. Smjörið á að vera kalt viðkomu en samt það mjúkt að það myndist dæld ef fingri er þrýst ofan í það.
 • Þeytið vel á milli hvers smjörbita og endurtakið þar til allt er komið saman við kremið.
 • Blandið næst bragðefnum við, t.d. vanillu og síðan salti og þeytið áfram.
 • Ef þið viljið lita hluta af kremi þá skiptið þið kreminu í skálar og blandið með matarlit.
Þessi er góður til að þeyta marengs hlutann af kreminu
Þessi er svo góður þegar bæta á smjörinu saman við
Fyrsta kökutilraun mín
Nokkuð ánægð með þetta
Sniðugt að bræða sykurlausar karamellur og skreyta með, hitaði í ofni.