Prinsessubollakökur

Það er svo gaman þegar krem heppnast vel á bollakökur enda svo smart að skreyta tertur og múffur með fallegu kremi. Þetta krem er algjör snilld og hefur alltaf heppnast hjá mér. Það er notað Xanthan gum í það og það er nauðsynlegt til að kremið haldi lögun sinni lengi. Það má að sjálfsögðu sleppa matarlit eða hafa annan lit í þínum kökum. Bollakökustandurinn er fáanlegur í verslun Systra & Maka. Það er hægt að losa hann alveg í sundur og geyma flatan. Hann er úr pólýhúðuðu áli og er íslensk framleiðsla frá KristuDesign. Bollakökurnar sjálfar eru úr kökumixpakka frá Funksjonell en ég bætti við 1 dl af sýrðum rjóma í deigið og minnkaði vatnið um 1 dl á móti og setti nokkra möndludropa út í. Það er að sjálfsögðu hægt að nota annað deig en þetta var fljótlegt og gott.

INNIHALD:

 • 125 ml rjómi
 • 115 g smjör ósaltað
 • 1 tsk vanilludropar
 • 120 g sæta, fínmöluð
 • 40 g rjómaostur
 • 1/3 tsk rauður eða bleikur matarlitur
 • 1/2 tsk Xanthan gum

aðferð við krem:

 • Hitið rjómann og smjörið saman í potti, bætið út í vanilludropum og sigtið Xanthan gum saman við.
 • Hellið blöndunni í skál og kælið í 30-60 mín.
 • Takið skálina úr kæli og þeytið blönduna rólega saman. Setjið fínmalaða sætu saman við smjörið, þeytið aftur og að lokum fer rjómaosturinn út í. Þeytið aftur á fullum krafti þar til þið eruð ánægð með áferðina á kreminu.
 • Sprautið kreminu á bollakökurnar með Wilton 1M t.d. til að gera fallegar rósir.