Ricotta heimagerður

Hún Katla systir er mesti nautnabelgur sem ég þekki fyrir utan mig sjálfa. Hún tók eitt sinn þátt í ricotta ostakeppni hjá Búrinu ásamt starfsstúlkunum sínum og áttu þær s.s. að bragðbæta ostinn sem búinn var til á námskeiðinu. Hún og hennar lið gjörsigraði auðvitað enda með afbrigðum matvitrar. Í þeirra útfærslu var nýgerður ricottaostur auðvitað, niðurskorin parmaskinka, sítrónubörkur, kóriander og lakkríssalt. Uuuu geggjað. Ég gerði núna þessa uppskrift eftir að hafa lagað um 400 g af ricotta í Thermomix vélinni á innan við 20 mín. Það sem þessi græja getur ekki gert haha. Njótið elskurnar þetta er tjúllað.

innihald ostur:

 • 2 lítrar nýmjólk
 • 2 dl af matreiðsluediki

aðferð í Thermomix:

 • Setjið mjólkina í eldunarskálina.
 • Stillið til að byrja með 10 mín/ hiti 95°/ hraði 2
 • Ef hitinn sýnir 95° eftir 10 mín þá er mjólkin klár, annars aukið þið við tímann og náið upp í 95° það sést á skífunni í kringum hitamælinn hvort skálin sé orðin nógu heit. Gæti þurft 15 mín.
 • Þegar hitinn er réttur þá setjið þið örstutt á hraða 4 til að mynda hvirfil á mjólkinni. Hellið þá edikinu örsnöggt út í mjólkina, ath að 2 dl eru 2 mælilok.
 • Látið mjólkina “taka” sig í 2-5 mín.
 • Setjið grisju í suðukörfuna og stillið henni ofan í vask á upphækkun svo greiðlega gangi að leka úr henni.
 • Veiðið ostinn upp úr skálinni með ausu með götum og leggið í grisjuna. Hellið síðan mysunni ofan í sigtið ( ath að það er hægt að safna mysunni og nota í brauðbakstur)
 • Leyfið ostinum að drena alveg út í grisjunni.
 • Bragðbætið strax með kryddi ef þið viljið því það er aðveldara þegar hann er volgur.
 • Það er líka hægt að nota ricotta í sæta rétti eins og fylltar canneloni stangir.

Krydd:

 • parmaskinka
 • kóriander
 • sítrónubörkur
 • lakkríssalt

aðferð:

 • Skerið parmaskinku smátt, magn fer eftir smekk
 • rífið sítrónubörk niður og blandið saman við volgan ostinn, blandið svo skinkunni út í og að lokum dreifið kóríander og lakkríssalti yfir allt.