Sítrónukaka, svona Starbucks

Ég elska Starbucks, eða elskaði , ég fæ mér náttúrulega ekki bakkelsi þar lengur en læt græja allskonar lágkolvetna kaffidrykki ef ég er á ferðalagi. Ein kakan þarna er samt svo góð að ég hef næstum fallið fyrir freistingunni en það er Sítrónuformkakan. Ég gerði hér mína útgáfu sem smakkast dásamlega en það er líka hægt að nota kökumix pakkana frá Funksjonell með góðum árangri en nota glassúr og sírópsuppskriftina hér að neðan. En fyrir þá sem nenna að baka eftir uppskrift þá er þessi mjög góð, mjúk og fín.

Sítrónuformkaka

 • 80 g brætt smjör
 • 150 g rjómaostur
 • 100 g sæta
 • 4 egg
 • 110 ml möndlumjólk ósæt
 • 1 tsk vanilludropar Kötlu
 • 1 tsk sítrónudropar Kötlu
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • börkur af 1 sítrónu
 • 120 g möndlumjöl
 • 60 g kókoshveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/4 tsk matarsódi
 • 1/3 tsk Xanthan gum
 • saltklípa ca 1/3 tsk

aðferð:

 • Þeytið saman smjör og sætu
 • Bætið við eggjum einu í einu, því næst rjómaostinum, vanillu og sítrónudropum
 • Þurrefnin fara næst saman við ásamt sítrónusafanum, berkinum og möndlumjólkinni
 • Þeytið saman en ekki of ákaft
 • Setjið deigið í form og bakið í 170 °ofni í um 40 mín eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunni.

Síróp:

 • 3 msk fínmöluð sæta
 • safi úr 1/2 sítrónu

aðferð:

 • Hitið sítrónussafa og sætu í potti þar til fer að krauma
 • Stingið nokkur göt á formkökuna og helllið sírópinu varlega yfir kælda kökuna

glassúr:

 • 10 g eggjahvíta
 • 60 g fínmöluð sæta
 • 2 msk sítrónusafi

aðferð:

 • Skellið öllu í blender t.d. Nutribullet og þeytið saman glassúrinn
 • Hellið yfir kökuna og látið stífna.
Þetta mix hentar vel í svona köku líka
Það er allt gott með sítrónu