Skinku og aspasrúlla

Þótt heilsuræktin og hollt mataræði sé efst á baugi hjá mörgum þá sleppir maður ekki saumaklúbbnum og hittingum í vetur enda fátt hollara mannsálinni en að hitta vini og kunningja, spjalla og “hygge sig” Hér er uppskrift af rúllubrauði sem á svo sannarlega heima í næsta hitting og er þar að auki kolvetnalétt og góð viðbót á veisluborðið. Það þarf nú ekki að borða eintómar gúrkur og sellerí þegar hægt er að útbúa þessa elsku.

Innihald:

 • 4 eggjarauður
 • 4 eggjahvítur
 • 125 g sveppasmurostur
 • 1 msk HUSK
 • 1 tsk lyftiduft

Aðferð:

 • Þeytið eggjahvíturnar sér og setjið til hliðar.
 • Setjið rauðurnar í hrærivélina ásamt sveppaostinum og þeytið vel, bætið Huski út í og þeytið áfram ásamt lyftiduftinu.
 • Blandið því næst eggjahvítunum varlega saman við rauðurnar og hrærið þar til nokkuð kekkjalaust.
 • Smyrjið deiginu í stóran ferning á góðan smjörpappír og bakið í 180° í u.þ.b. 10 mín er þar til deigið er snertiþurrt. Takið þá bökunarplötuna úr ofninum og leyfið deiginu að kólna í 2-3 mín. Snúið brauðinu við og setjið svo fyllingu inn í.

Fylling:

 • 1 dós aspas, um 250 g án vökva
 • 125 g sveppasmurostur
 • 100 g skinka skorin smátt
 • 2 dl rifinn ostur að eigin vali
 • 1/2 teningur af kjuklinga eða grænmetiskrafti
 • salt og pipar
 • 1/2 dl rjómi
 • OFAN Á RÚLLU:
 • paprikuduft
 • 2 msk mæjones
 • 2 msk sýrður rjómi
 • rifinn ostur

aðferð:

 • Hellið vökvanum úr aspasdósinni og saxið aspasinn aðeins niður í smærri bita.
 • Bræðið svo allt hráefnið í fyllinguna saman í potti nema skinkuna.
  Dreifið því næst fyllingunni á deigið, dreifið skinkunni yfir og rúllið upp. Gott að nota smjörpappírinn undir til að aðstoða við að rúlla upp.
 • Smyrjið rúlluna með blöndu af mæjonesi og sýrðum rjóma.
 • Stráið rifnum osti yfir og paprikudufti og bakið í 15-20 mín á 200° þar til rúllan er brúnuð og falleg.
 • Þetta er auðvitað bara tillaga að einni týpu af rúllubrauði, hægt er að skipta út smurosti fyrir t.d. pizzusmurost og breyta fyllingunni í pizzufyllingu með chorizo, pizzusmurosti, og tómatpúrru.