Súkkulaðimús með kaffikeim

Ég fæ iðulega hugmyndir frá matarsnillingum úti í heimi og oftast eru það uppskriftir með sykri sem er þó svo einfalt að snúa á lágkolvetna eða ketó vegu. Að þessu sinni ákvað ég að reyna við súkkulaðimús sem hann Gulli Arnar, snillingur og kondtior útbjó í innslagi hjá Bakó Ísberg þegar covid ástandið var í hámarki. Þeir hjá Bakó styttu landanum stundir með fjölbreyttum smáþáttum og kynntu til leiks allskonar matreiðslumenn, bakara og þjóðþekkta einstaklinga sem sýndu listir sínar í eldhúsinu. En allavega þar á meðal var þessi girnilega súkkulaðimús sem ég snaraði yfir á LKL hátt og hún smakkaðist alveg ótrúlega vel. Ég mæli með að prófa. Ég sleppti nú að búa til karamellumiðju og baka botn en ég setti karamelluhnetukurl í botninn sem gaf stökka áferð og lyfti músinni á hærra plan.

Inniahald mús:

 • 200 ml kaffi uppálagað

 • 4 blöð matarlím

 • 120 g eggjarauður um 6 stk

 • 220 g sykurlaust súkkulaði

 • 400 ml léttþeyttur rjómi, ég notaði laktósafrían

 • 40 g sæta, ég notaði Sweet like sugar

 • 1 msk koníak eða romm, má sleppa 😉 aukavesen hjá mér

aðferð:

 • Leggið matarlímið í kalt vatn í um það bil 10 mín
 • Blandið eggjarauðum og sætu saman í pott ásamt kaffi og hitið upp í 80 gráður rúmar.
 • Ef notast er við Thermomix þá er gott að stilla á ÞYKKJA stillinguna, sem er 12 mín að komast í 80°hita
 • Kreistið vökvann úr matarlíminu og bætið við heita blönduna og hrærið varlega.
 • Sigtið vökvann yfir súkkulaðið og leysið upp með sleif. Bætið síðan léttþeyttum rjóma saman við og hrærið öllu vel saman þar til slétt og fellt.
 • Deilið músinni niður í form, ég notaði silikon muffinsform og náði 12 stk úr þessari uppskrift. Helmingið ef þið viljið gera minna magn.
 • Dreifið næst hnetumulning yfir og frystið. Ath það má sleppa mulningnum en það gerir mjög mikið.

innihald hnetukurl:

 • 125 g möndlur

 • 125 g pekanhnetur

 • 25 g sukrin gold

 • 25 g sukrin sirop

 • 25 g smjör

 • 1/4 tsk kanill

aðferð:

 • Hitið hneturnar í 200 ° heitum ofni í um það bil 10 mín, passið að brenna ekki.
 • Hitið sætuefnin og smjör í potti þar til gylltur litur kemur á karmelluna. Bætið kanil að lokum við og hrærið á jöfnum hita.
 • Blandið hnetunum saman við karamelluna og dreifið næst á smjörpappír og látið kólna. Malið gróft í blandara eða skerið niður með beittum hníf.
 • Nú er hægt að nota hnetukurlið sem snakk eða nota í botninn á kaffimúsinni.