Súkkulaðiterta með englakremi eða “tyggjókremi”

Ég man alltaf eftir góðu súkkulaðikökunni sem amma Erla bakaði fyrir okkur í veislum og það voru svo sannarlega veislur þegar hún bauð í heimsókn, súkkulaðibotna átti hún í stöflum í frysti og ýmist bauð hún upp á piparmyntuglassúr, súkkulaðikrem eða hið víðfræga tyggjókrem sem voru þeytt eggjahvíta og síróp. Það var því gaman að gera útfærslu fyrir mig sem er sykurlaus og lágkolvetna en það kveikti endanlega í mér þegar ég sá færsluna á blogginu hennar Berglindar hjá Gotteri.is sem var að baka þessa frægu köku svo ég hellti mér í verkið þrátt fyrir að hafa átt að liggja í bælinu með hálsbólgu. Ég fiktaði aðeins í kreminu og endaði á því að nota 2 hvítur og meira af sírópi. Mæli ekki með því að geyma köku í kæli.

Ingredients

 • 4 egg

 • 100 g sæta sykurlaus Good good, eða Sukrin Gold

 • 1 dl rjómi MS

 • 1 dl grísk jógúrt MS

 • 20 g olía, gott að nota kókosolíu, bragðlausa ólífu eða avocadoolíu

 • 1 tsk lyftiduft

 • 1/2 tsk matarsódi

 • 50 g kókoshveiti

 • 20 g kakó

 • 1/2 tsk salt

 • 30 ml heitt kaffi uppáhellt eða soðið vatn

 • 1 tsk vanilludropar

Directions

 • Þeytið egg og sætu saman, því næst rjóma, grísku jógúrtina, olíu og vanilludropana.
 • Bætið að lokum þurrefnum saman við og að lokum kaffinu. Látið deigið standa í smá tíma.
 • Hellið deiginu í eitt silikonform hringlaga, mér finnst gott að pensla aðeins botninn með kókosolíu svo kakan festist ekki.
 • Bakið í 20-30 mín á 170° hita. Látið kökuna standa í ofninum aðeins í lok bökunartímans svo hún nái að bakast í gegn. Hún fellur aðeins í miðjunni en það er í góðu lagi. Hún er mjúk og létt í sér.

Ingredients

 • 50 g sæta, t.d. Sukrin Melis eða fínmalið Sweet like sugar sætu

 • 150 g síróp, ég notaði Fiber síróp glært, en má nota dökkt

 • 1 msk vatn

 • 2 eggjahvítur við stofuhita litlar eða um 50 g úr brúsa

 • 1/3 tsk piparmyntudropar eða vanilludropar

Directions

 • Stífþeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni skál, gott að strjúka úr skál með ediki.
 • Meðan hvíturnar þeytast þá bræðið þið síróp, sætu og vatn í potti þar til það er alveg glært og fljótandi.
 • Hellið sírópinu í könnu með stút og hellið síðan í mjóum taumi út í eggjahvíturnar og þeytið á meðan. Gott að gera í nokkrum atrennum. Stífþeytið svo kremið í þónokkurn tíma eða þar til toppar myndast.
 • Bætið myntu eða vanillu saman við og dreifið síðan kreminu á botninn.
 • Þessi er góð með kreminu eða jafnvel rjómaslettu.

Ingredients

 • 90 g eggjahvítur eða um 3 stk

 • 50 g vatn

 • 170 g Nicks sæta

 • 1/3 tsk vanilludropar eða piparmynta

Directions

 • Stífþeytið eggjahvítur í tandurhreinni skál, gott að strjúka innan úr skálinni með ediki.
 • Setjið vatn í pott og síðan sætuna Nicks.
 • Látið suðuna koma upp og passið að það sjóði ekki upp úr, fylgist með en hrærið ekki í sírópinu. Þegar sætan hefur leyst upp þá er sírópinu hellt í örmjórri bunu út í eggjahvíturnar meðan þær þeytast áfram.
 • Gott er að gera þetta í litlum skömmtum svo eggjahvíturnar nái að halda lofti og þeytast vel. Bætið hér bragðefni við ef þið viljið.
 • Þegar marengsinn er stífur er hann settur í sprautupoka og sprautað yfir lemonkökuna. Fallegt er að brenna toppana með matreiðsluloga eða skella kökunni örstutt undir grill í ofninum.