Úpsís, eða Oopsie brauð

Oopsie brauð eða skýjabrauð oft kallað á íslensku er alveg merkileg uppgötvun. Fyrir þá sem sakna þess að hafa einhverskonar brauðmeti til að halda uppi álegginu, salatinu eða hamborgaranum þá er hér komin frábær leið til þess að fá brauðfílinginn aftur í kolvetnasnauða líf ykkar. Það er mikilvægt að stífþeyta hvíturnar vel í þessari uppskrift svo ekki flýta ykkur um of.

Þennan grunn má einnig nota til að gera saumaklúbbsrúllu með skinku og aspas, heitan brauðrétt, rjómabollur og jafnvel kanilsnúða.

Innihald:

 • 6 egg aðskilin í rauður og hvítur
 • 120 g rjómaostur
 • 1/4 tsk vínsteinslyftiduft eða cream of tartar
 • 1 msk rifinn parmesanostur
 • 1/2 tsk þurrkað oregano
 •  

Aðferð:

 • Hitið ofn í 150° hita með blæstri.
 • Stífþeytið eggjahvítur og vínsteinslyftiduft/cream of tartar þar til hvíturnar eru vel stífar.
 • Hrærið í annari skál, rjómaostinn og eggjarauðurnar með handþeytara og vinnið vel úr rjómaostinum.
 • Blandið nú varlega saman eggjahvítum og rauðum með sleikju. Fyrst helmingnum af hvítunum með ákveðnum hreyfingum og síðan fer seinni helmingurinn saman við ofurvarlega. Skiptið deiginu niður í jafnar bollur, gott að nota desilítramál t.d. eða litla ausu.
 • Dreifið aðeins úr deiginu svo allt sé jafn stórt í ummáli. Dreifið parmesanostinum á hverja bollu, og kryddið.
 • Bakið nú í 25-30 mínútur. Þegar brauðin eru gyllt og falleg þá kippið þeim úr ofninum og leyfið þeim að kólna.