Aspassúpa frá grunni

Ég átti leið í Nettó eins og svo oft áður á leið heim úr vinnu eða öðru stússi og ætlaði svo sannarlega ekki að hafa súpu á föstudegi en þegar ég sá aspasbakkana í grænmetisdeildinni, þessa litlu krúttlegu þá stóðst ég ekki mátið og kippti með mér heim knippum af aspas. Það yrði bara súpa á föstudegi einu sinni!! Ég bakaði dásamlega bragðgóðar skonsur með súpunni, sleppti bara sætunni og þær pössuðu mjög vel með.

innihald:

 • 1 msk steikingarolía OLIFA
 • 25 g smjör
 • 1 gulur laukur
 • 700 ml soðið vatn
 • 2 kraft teningar, grænmetis eða kjúklinga
 • 150 g sellerí
 • 300 g aspas
 • 100 ml rjómi
 • salt og pipar

aðferð:

 • Steikið lauk upp úr smjöri og oliu
 • Bætið sellerí saman við og látið mýkjast í feitinni en ekki brenna við.
 • Bætið aspas saman við og soði, vatn og kraftur
 • Látið súpuna sjóða í 10 mín þar til aspasinn hefur mýkst upp.
 • Hér er hægt að nota töfrasprota til að mauka súpuna eða annarskonar matvinnsluvél
 • Bætið rjóma saman við og kryddið þar til þið eruð ánægð með bragðið.
 • Gott að bera fram með nýbökuðum skonsum eða öðru lágkolvetna brauði.

aðferð með Thermomix:

 • Setjið lauk í eldunarskálin ásamt smjöri og olíu.
 • Steikið í 3 mín / 120°/ hraði 1
 • Bætið sellerí saman við og hitið áfram í 2 mín / 120° / hraði 1
 • Aspasinn og soðið( vatnið og krafturinn) fer næst ofan í skálina og nú má sjóða súpuna í 10 mín / 100°/ hraði 2
 • Maukið næst súpuna í 30 sek ca frá hraðanum 4-8 farið varlega.
 • Bætið rjóma og kryddi saman við og hrærið stutt 2 mín / hraði 2
 • Smakkið til og berið svo fram með nýbökuðum skonsum eða öðru lágkolvetna brauði.