Hnetunammi í TM6

Já það fer líklega ekki framhjá neinum að ég á mjög fjölhæfa matvinnsluvél. Hún kallast Thermomix og nú var að bætast við í fjölskylduna nýjasta útgáfan eða TM6 , ég á TM5 og hún er algjörlega fullkomin nema hvað að í nýju vélinni er netið innbyggt og aðgengi að yfir 40.000 uppskriftum sem er mjög hentugt fyrir þá sem eru hrifnir af því að prófa nýjar uppskriftir og láta reyna dálítið á fjölbreytnina. Eins fer hitastigið upp í 160°en í TM5 fer hún hæst upp í 120°. Þetta kemur sér vel fyrir nammikellingu eins og mig og nú get ég gert karamellu, svissað lauk, gert chutney, brúnað sveppi og leikið mér enn meira með græjunni. Hér er uppskrift sem hægt er að gera í þykkbotna potti að sjálfsögðu á sirka 25-30 mín en einnig fer hér aðferðin sem er að finna í TM6 eingöngu með breytingum svo við sykurlausu getum notið.

innihald:

 • 150 g Sukrin Gold Sirup
 • 100 g Sukrin gold eða Sweet like sugar sæta
 • 30 g smjör
 • 70 g rjómi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 150 g blandaðar hnetur, macadamiu, möndlur, pecan
 • gróft salt í lokin til að strá yfir karamelluna

hefðbundin aðferð:

 • Skerið hneturnar gróft og dreifið á bakka eða í form með smjörpappír í botninn.
 • Hitið næst síróp, sætu og smjör í þykkbotna potti eða pönnu þar til suðan kemur upp, karamellan má alveg dökkna töluvert en ekki brenna. Passið að hræra stöðugt í og ekki fara frá eldavélinni.
 • Bætið þá rjóma saman við og látið malla í góðar 25-30 mín
  setjið vanilluna saman við og hellið síðan blöndunni yfir hnetumulninginn.
 • Stráið grófu salti yfir og frystið.

aðferð með Thermomix 6:

 • Setjið hnetur í hreina eldunarskálina og veljið 1-2 sek/hraði 5 þar til hneturnar eru gróflega saxaðar. Hreinsið skálina
 • Veljið uppskriftina sem kallast Peanut Brittle í uppskriftabókinni í vélinni en í staðinn fyrir púðursykur nota ég síróp og sætu. Í stað sítrónudropa setti ég vanilldropa og í stað vatns nota ég rjóma.
 • Setjið sætu, smjör, sýróp og rjóma í eldunarskálina og fylgið leiðbeiningum þar til komið er á Sugar Stages stillinguna.
 • Þegar eldunartíminn er liðinn þá hellið þið karamellunni yfir hnetumixið. Það er líka hægt að sleppa hnetunum og nota bara karamelluna og hella í mót.
 • Þrífið skálina skv leiðbeiningum, með því að setja 1000 ml af vatni í skálina, og edik og fylgið leiðbeiningum til enda.
 • Látið hnetustykkin kólna og skerið svo niður í hæfilega bita.