Kjúklingasalat með mæjó

Þetta klikkaðslega einfalda salat er ótrúlega bragðgott og mettandi. Það er bæði hægt að borða það eintómt en svo er það mjög gott á beyglur, hrökkex eða annað lágkolvetnabrauðmeti. Það mætti líka borða það úr kálblaði því það þarf ekkert annað. Það er sérlega gott að nota cumin í þessa uppskrift svo ekki sleppa því. Mæli eindregið með því kryddi.

Innihald:

 • 1 heill kjúklingur, kældur, hægt að kaupa dagsgamlan grillkjúkling víða í verslunum á hálfvirði
 • 150 g sellerí
 • 3 msk mæjones
 • 2 msk sýrður rjómi 18%
 • 1 tsk cumin
 • 1/2 dl möndluflögur
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 1/2 tsk svartur pipar

Aðferð:

 • Rífið kjúklinginn gróflega niður. Setjið sellerí í matvinnsluvél eða skerið smátt.
 • Blandið mæjonesi og sýrðum rjóma saman og kryddið . Blandið svo kjúklingnum saman við ásamt mæjósósunni.
 • Dreifið möndluflögunum yfir og berið fram.