Kjúklingur í raspi

Kjúklingur í raspi, já það hljómar of gott til að vera satt ! Það er samt alveg hægt að gera geggjað rasp úr ýmsu eins og parmesan, möndlumjöli, svínapurusnakki og svo auðvitað frábæra brauðmixinu frá Funksjonell. Ég einfaldlega mala brauðmixið fínna, krydda með góðu kjúklingakryddi, velti kjúklingabringum upp úr pískuðu eggi og svo raspinu góða. Með þessum rétti finnst mér gaman að bera fram kúrbíts eða Slendier pasta með avocado og limesósu. Þetta er ótrúlega einfalt allt, ferskt og gott.

Innihald:

 • 3-4 kjúklingabringur
 • 2 – 3 dl Fiber brauðblanda möluð fínt
 • 1 egg
 • kjúklingakrydd, t.d. Pottagaldur
 • olía

Aðferð:

 • Malið brauðblönduna fínt í matvinnsluvél, kryddið og setjið í djúpan disk. Pískið egg í öðrum disk.
 • Setjið kjúklingabringur í poka og lemjið þær út þar til þær hafa tvöfaldast í stærð.
 • Veltið kjúkling nú upp úr eggi og því næst brauðblönduraspinu og steikið á pönnu á báðum hliðum.
 • Færið kjúklinginn yfir í eldfast mót eða setjið pönnuna í ofninn í ca 15 mín á 220°hita.

Kúrbítspasta með avocado

 • 1 stór kúrbítur
 • 2 stór avocado
 • 1 stórt lime, safi
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 dl macadamiuhnetur
 • lúka af ruccola
 • lúka af steinselju
 • 2 msk ólífuolía
 • salt og pipar

Afðerð:

 • Rífið kúrbítinn niður í strimla, með rifjárni eða sérstökum yddara fyrir grænmeti. Saltið og látið strimlana útvatnast í 15 mín.
 • Setjið allt annað innihald í matvinnsluvél og maukið, þynnið með meiri limesafa og olíu ef þurfa þykir.
 • Skolið af kúrbítspastanu og léttsteikið á pönnu, hellið avocado sósunni yfir og blandið vel saman.
 • Berið fram með kjúklingabringu, grænu salati og gleði.