Purubrauð !

Já þið lásuð rétt, purubrauð úr svínapurusnakki það er mögulegt. Það er sem sagt notað í stað þess að setja möndlumjöl í brauð eða annað mjöl sem telur alltaf svolítið í kolvetnum. Þetta verður ótrúlega bragðgott líka með purusnakkinu sem er dálítið saltað svo ég mæli með að krydda með einhverju öðru en salti. Ég gerði bæði hamborgarabrauð úr þessari uppskrift, 4 talsins, einn pizzabotn og nokkur flatbrauð undir ostasalat. Já ótrúlega drjúgur skammtur. Ég notaði Thermomixinn minn í þessa uppskrift en það má auðvitað nota rifjárn eða aðrar eldhúsgræjur en Thermóinn er geggjaður í þetta. Það má líka hella deiginu í beygluform og strá góðu kryddi yfir.

Innihald:

 • 50 g svínapurusnakk frá Kim´s
 • 30 g parmesanostur
 • 3 egg
 • 1 msk lyftiduft
 • 230 g rifinn ostur
 • 230 g rjómaostur
 • krydd eftir smekk, pizzukrydd t.d. eða rótargrænmetiskrydd frá Kryddhúsinu það kom vel út.

aðferð:

 • Malið parmesanost í matvinnsluvél eða rífið niður með rifjárni, bætið svo svínapurusnakkinu við og malið það eða merjið í poka með buffhamri.
 • Hitið rjómaost og rifinn ost í örbylgjuofni í 1 mín í senn, hrærið á milli þar til ostarnir verða fljótandi.
 • Bætið eggjum við, purusnakkinu, lyftidufti og parmesan ostinum og hrærið vel.
 • Dreifið deiginu á bökunarpappír eða í form. Þetta deig má nota t.d. í hamborgarabrauð, pizzur, brauð undir salat eða hvað sem hugurinn girnist.
 • Ég kryddaði það mismunandi eftir því sem mig langaði að gera, t.d. pizzukrydd í pizzabotninn, rótargrænmetiskrydd í eitt brauðið og setti sesamfræ ofan á hamborgarabrauðin.
 • Bakið í 15-20 mín á 170 ° hita.

aðferð með thermomix:

 • Setjið parmesanost í skálina og malið 10 sek / hraði 8
 • Bætið purusnakkinu saman við og malið aftur 10 sek / hraði 8
 • Næst bræðið þið saman rjómaosti og rifinn ost í örbylgjuofni í 1 mín í senn þar til osturinn er fljótandi.
 • Hellið ostinum í skálina, ásamt eggjum, lyftidufti og kryddi ef þið viljið og hrærið á 20 sek / hraði 5
 • Dreifið úr deiginu á smjörpappír eða í form, bara það sem hentar hverju sinni því það er hægt að nota þetta deig í hvað sem er, hamborgarbrauð, pizzubotn eða hálfgert ostaflatbrauð.
 • Bakið í 15-20 mín á 170 ° hita.